Flutningur ríkisstofnana

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:29:40 (1305)


[15:29]
     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér hafa nokkrir hv. stjórnarsinnar komið upp og talað ýmist um ,,tregðulögmál`` eða ,,þurfi að athuga vandlega`` og ,,staðsetja frekar nýjar stofnanir úti á landsbyggðinni`` og annað slíkt. Þannig að ég hlýt að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort honum var ekki full alvara þegar hann skipaði þessa nefnd. Þetta var svo aðkallandi verkefni að nefndin fékk ekki nema mjög stuttan tíma til umráða til að skila tillögum. Reyndar þurfti nefndin, vegna þess að hún lagði mikla áherslu á að skila vönduðum tillögum, að fá svolítinn frest á því að skila af sér. En ég tek undir það sem hér hefur komið fram að þetta voru góðar tillögur og mjög vel úthugsaðar og færð fyrir þeim rök sem allir geta séð í þessari skýrslu. En ég er farin að efast um það eftir þessar ræður að hugur hafi fylgt þarna máli.