Héraðsskólinn í Reykjanesi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:33:40 (1309)

[15:33]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. menntmrh. um Héraðsskólann í Reykjanesi. Forsaga þess er sú að síðla sumars 1991 var tekin ákvörðun í menntmrn. um að loka Héraðsskólanum í Reykjanesi. Var það rökstutt með nemendafæð. Ekki voru þó allir á einu máli um að nemendur væru svo fáir sem af var látið og einnig bent á að oftast fjölgaði nemendum eftir að skólinn væri tekinn til starfa, það sýndi reynsla m.a. á undanförnum árum.
    Þrátt fyrir mótmæli fjölmargra heimaaðila, m.a. skólanefndar héraðsskólans, þingmanna Vestf., Fjórðungssambands Vestfjarða o.fl., þá hélt ráðuneytið fast við þessa ákvörðun. Skólanum var sem sagt lokað þrátt fyrir að það væru nemendur til staðar. Það var búið að ráða kennara og skólastjóra sem að sjálfsögðu héldu sínum launum.
    Þetta mál tel ég nauðsynlegt að rifja aðeins upp vegna þessarar fyrirspurnar sem ég kem hér fram með. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992 lofaði hæstv. menntmrh. að skipa nefnd til að gera tillögur um framtíð Reykjanesskólans. Það má e.t.v. líka rifja það upp í tengslum við þetta að í umræðum sem þá voru var einmitt nefnt að nú væri tilvalið tækifæri til að standa við þál. um úrbætur á aðstæðum ungmenna sem flosna upp úr skóla og hafði verið samþykkt á Alþingi 12. mars 1991. Það var sem sagt skipuð þessi nefnd og nefndin hefur haldið allmarga fundi eftir því sem ég veit best en það bólar samt ekkert á tillögum um framtíð skólans. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra:
    1. Hefur nefndin, sem fjalla átti um framtíð Héraðsskólans í Reykjanesi, lokið störfum?
    2. Ef svo er, hverjar eru tillögur nefndarinnar?
    3. Hvað hyggst ráðherra leggja til í framhaldi af starfi nefndarinnar?