Héraðsskólinn í Reykjanesi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:35:59 (1310)

[15:35]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Nefnd sú sem fjallað hefur um framtíð Héraðsskólans í Reykjanesi skilaði skýrslu sl. vor. Samkvæmt erindisbréfi var nefndinni falið að ,,kanna með hvaða hætti best megi nýta byggingar á staðnum og landgæði þannig að til sem bestra hagsbóta geti orðið fyrir byggðarlagið`` eins og sagði í erindisbréfinu. Skýrslunni hefur ekki verið dreift en hún er að sjálfsögðu ekkert leyndarmál og ég er hér með eintak sem sjálfsagt er að afhenda hv. fyrirspyrjanda.
    Tillögur nefndarinnar eru í þrettán liðum. Í stuttu máli má segja að nefndin leggi til að stofnaður verði á Reykjanesi grunnskóli fyrir unglinga á aldrinum 14--16 ára. Um verði að ræða sérstakt úrræði fyrir unglinga sem talið er að þurfi að skipta um umhverfi af ýmsum félagslegum ástæðum. Jafnframt verði unglingum úr Djúpi gefinn kostur á að ljúka grunnskólanámi í skólanum. Lagt er til að skólinn verði rekinn sameiginlega af ríki og sveitarfélögum og kostnaður einstakra sveitarfélaga verði í hlutfalli við nemendafjölda. Í skýrslunni kemur fram að gert er ráð fyrir að skólinn verði einkum sóttur af nemendum af höfuðborgarsvæðinu.
    Augljóst er að nefndarmenn hafa mikinn áhuga á að skólamannvirki á Reykjanesi verði nýtt til fullnustu til hagsbóta fyrir byggðarlagið. En því miður eru tillögur nefndarinnar ekki í fullu samræmi við þá þróun sem orðið hefur í skólamálum grunnskóla á undanförnum árum. Almenn skólastefna á Íslandi hefur gengið út frá því að hver nemandi á grunnskólastigi eigi rétt á þjónustu í heimaskóla, það sé skylda hins almenna grunnskóla að leita allra ráða til að mæta ólíkum þörfum nemenda. Sú hugmynd að safna unglingum á grunnskólastigi sem eiga í félagslegum erfiðleikum saman í einn skóla úti á landi er því á skjön við ríkjandi menntastefnu. Vel má vera að í einhverjum tilvikum verði talið æskilegt að stofna sérstaka skóla fyrir börn og unglinga með hegðunarvandkvæði. En ákvörðun um skólahald af þessu tagi er í eðli sínu stefnumarkandi. Slík ákvörðun verður ekki tekin nema að undangenginni ítarlegri, faglegri og fræðilegri umfjöllun um það hvernig börnum sem svo er ástatt um verði sinnt á sem bestan hátt. Svo afdrifarík skólapólitísk ákvörðun sem hér um ræðir verður ekki tekin út frá byggðasjónarmiði einu og sér. Ég tel að ekki sé tímabært að taka ákvörðun um námsframboð á unglingastigi grunnskóla í Reykjanesskóla. Hins vegar má vel hugsa sér að hægt verði að nýta mannvirki staðarins til skólahalds í framtíðinni.
    Vert er að hafa í huga að Reykjanesskóli er einn af átta fyrrverandi héraðsskólum. Við breytt skipulag skólamála á Íslandi undanfarin ár hefur orðið mikil breyting á stöðu héraðsskólanna. Sumir hafa fengið nýtt hlutverk, aðrir eru í óvissri stöðu á mörkum tveggja skólastiga í senn, en í öðrum hefur skólahald lagst niður. Áætlaður flutningur grunnskóla til sveitarfélaga krefur ríki og sveitarfélög um að taka ákvörðun um breytingar á skólahaldi í héraðsskólum sem starfa bæði á grunn- og framhaldsskólastigi. Stórar skólaeiningar gefa möguleika á fjölbreyttara námsframboði og áhugaverðara skólastarfi í unglingadeildum. Því má vel hugsa sér að sveitarfélög muni sameinast um rekstur einstakra héraðsskóla í framtíðinni. Hinn möguleikinn er að nýta einstaka héraðsskóla alfarið til kennslu á framhaldsskólastigi.
    Eins og hv. þm. er kunnugt er nú í undirbúningi frv. til laga um framhaldsskóla og mun það lagt fyrir á yfirstandandi þingi. Í því frv. verður gert ráð fyrir aukinni fjölbreytni í námsframboði framhaldsskóla en markmiðið er að skólinn komi betur til móts við ólíkar þarfir nemenda hvað varðar námsundirbúning og áhugasvið. Hugsanlega gætu héraðsskólarnir gegnt mikilvægu hlutverki fyrir námstilboð á framhaldsskólastigi. Til dæmis varðandi einhvers konar fornám eða annað nám fyrir nemendur sem ljúka grunnskóla án þess að hafa náð lágmarksárangri. Í Reykholtsskóla í Borgarfirði er nú þegar verið að vinna eftir öðrum leiðum en tíðkast í framhaldsskólum almennt. Virðist skólinn vera að þróast í þá átt að veita áhugavert nám á framhaldsskólastigi. Þrátt fyrir að skólinn í Reykholti starfi nú aðeins annan veturinn með þessu sniði fer aðsóknin vaxandi.
    Ljóst má vera að í því framtíðarskipulagi framhaldsskóla sem stefnt er að gætu einhverjir fyrrverandi héraðsskólar fengið nýtt hlutverk sem skólar á framhaldsskólastigi. Hitt er ekki tímabært að taka ákvörðun um þetta mál alveg á næstunni þar sem umræða um framhaldsskólafrv. hefur ekki enn farið fram og Alþingi á eftir að taka ákvörðun um skipan skólamála á framhaldsskólastigi á næstu árum. Af framangreindum ástæðum verða ákvarðanir um skólahald í Reykjanesi ekki teknar fyrr en skýr stefna í skólamálum á Íslandi hefur verið mótuð og samþykkt á Alþingi.
    Óformlegar umræður hafa farið fram við fulltrúa sveitarfélaga um mögulegan áhuga sveitarfélaganna á nýtingu Reykjanesskóla. Ætlunin er að taka upp formlegar viðræður við fulltrúa Samtaka sveitarfélaga eins og nefndin lagði til.