Héraðsskólinn í Reykjanesi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:46:22 (1315)


[15:46]
     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, þó ég hefði gjarnan viljað að þau væru öðruvísi, og einnig fyrir skýrsluna, sem ég hef loks fengið í hendur. Eins og hér hefur komið fram áður er þessi skýrsla dagsett 22. apríl 1993. Mér sýnist, en ég hef ekki haft mikinn tíma til að blaða í gegnum hana, að það sé búið að ræða við allmörg ráðuneyti og stofnanir á vegum ráðuneyta og allir hafa eindregið mælt með þeim úrræðum sem hér er bent á.
    Hvað viðvíkur því að það sé ekki sú skólastefna sem í gildi er að hafa sérúrræði fyrir unglinga, 14--16 ára, þá vil ég bara benda mönnum á hvaða úrræða við þurfum að grípa til þegar skaðinn er skeður. Til hvers ekki þurft að grípa undanfarin missiri í úrræðum fyrir unglinga, þ.e. meðferð eftir á, af því að forvarnirnar eru ekki gerðar. Það þarf að setja upp sérstakt meðferðarheimili í Skagafirði núna þar sem þrír unglingar eru --- og hvað, það eru 12 starfsmenn til að sinna þessum þremur unglingum. Ég er ekki að segja að það veiti ekki af því, en væri ekki betra að setja á fót skólastofnun sem tæki mið af þessum unglingum og sinnti þeirra þörfum? Ég efast um að það þyrfti jafnmikið af starfsmönnum í slíkri skólastofnun ef þessu væri sinnt á þann hátt sem nauðsynlegt er.
    Ég vil bara beina því til hæstv. ráðherra, sem er búinn að hafa þessa skýrslu á borðinu í marga mánuði, að nú þegar verði farið að vinna að því að úrræði séu fyrir hendi fyrir þá unglinga sem á því þurfa að halda og því verði komið inn í fjárlagafrv. fyrir næsta ár.