Ávinningur sjávarútvegs af GATT-samkomulagi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:58:20 (1323)

[15:58]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Í skýrslu hæstv. utanrrh. til Alþingis um utanríkismál frá því í mars 1992 er kafli þar sem farið er allmörgum orðum um svið svokallaðra Úrúgvæ-viðræðna sem er lokaþátturinn í GATT-ferlinu sem flestir þekkja. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Rétt er að geta þess að Bandaríkin hafa lagt til að samið verði um afnám tolla fyrir ákveðin vörusvið og komið á tollfrjálsum viðskiptum á þeim. Hafa þau haldið þessum tillögum til streitu þrátt fyrir misjafnar undirtektir. Varða þær t.d. stál, járnlausa málma, lyf, húsgögn, bjór, skógarafurðir, fisk og fiskafurðir o.fl. Vilja flest ríki, þar á meðal Norðurlönd, að það sé ákvarðað sem fyrst hvað af þessum tollfrelsistillögum eigi möguleika á að skila árangri til að ekki sé meiri tíma eytt í þær sem vonlausar eru. Þannig á tillagan um fisk og fiskafurðir litla möguleika vegna andstöðu EB og Japan. Vegna þess hve treglega gekk í þeim viðræðum lögðu Kanadamenn fram tillögu um miðjan desember sl. um úrlausn fyrir fisk og fiskafurðir. Samkvæmt henni skal tollur á öllum fiski og fiskafurðum lækkaður um þriðjung a.m.k. en möguleiki að semja um enn frekari lækkanir í tvíhliða viðræðum. Þá skuli samið um að tollar fyrir lifandi fisk verði engir, fyrir ferskan, kældan, frosinn, saltaðan eða þurrkaðan fisk ekki hærri en 5%, fyrir reyktan og kryddleginn ekki hærri en 7,5% og fyrir unnar fiskafurðir hæst 10%. Loks skyldi afnema magntakmarkanir og innflutningsleyfi. Haldnir hafa verið tveir óformlegir fundir nokkurra ríkja um tillögu Kanada þar sem Íslendingar og Norðmenn hafa stutt hana. Fulltrúar EB virðast tregir til samninga á þessum grundvelli en afstaða Japana er jákvæðari. Virðist margt benda til þess að tekist verði á um tollamálin fyrir fiskinn í tvíhliða viðræðum á grundvelli tilboðna og krafna.``
    Um líkt leyti og þessi skýrsla kom út aflaði ég mér allítarlegra upplýsinga hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna sem fékk þær í gegnum söluskrifstofur sínar bæði í Bandaríkjunum og Asíu. Þær leiða sitthvað fróðlegt í ljós. Hvað Japan varðar, sem er að verða eitt okkar mikilvægasta útflutningsland, þá kemur í ljós að heilfrystur karfi ber 5% toll, heilfryst grálúða 5% toll, heilfryst síld 6% toll, fryst rækja í skel 3% toll, heilfryst loðna 4% toll, fryst loðnuhrogn 5%, fryst karfahrogn 5%, fryst síldarflök 10%, ,,butterfly`` síldarflök 6% og pilluð rækja 3%. Suður-Kórea er aðili að GATT og þangað flytjum við heilan karfa sem ber 20% toll, fryst karfaflök hafa einnig 20% toll. Í Bandaríkjunum þurfum við líka að borga nokkra tolla þó þeir séu vissulega ekki mjög háir. Þess vegna tel ég ástæðu til að spyrja hæstv. utanrrh. í tilefni af því að lokahnykkur GATT-viðræðnanna er um þessar mundir:
    Hver yrði helsti ávinningur okkar af hugsanlegu GATT-samkomulagi fyrir íslenskan sjávarútveg?