Ávinningur iðnaðarins af GATT-samkomulagi

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:14:53 (1328)

[16:14]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegur forseti. Það er rétt sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda að Úrúgvæ-lota GATT-samninganna snýst um fjölmörg önnur vöru- og þjónustusvið en landbúnaðarmál sem heita má að hafi einokað umræðuna hér á landi. Þegar spurt er um iðanðinn má svara því til eins og áður um sjávarútveg, að beinn ávinningur íslensks iðnaðar er að sjálfsögðu í formi lægri tolla og afnáms viðskiptahindrana og óbeinn ávinningur er náttúrlega hlutdeild í hinum auknu heimsviðskiptum sem Úrúgvæ-lotan mun leiða til.
    Það er ljóst að verði samkomulagið að veruleika munu tollar lækka um að minnsta kosti einn þriðja fyrir íslenskan iðnað og í sumum greinum um mun meira samkvæmt tilboði sjöveldanna. Sama máli gegnir og í fyrra svari að við vitum ekki fyrr en eftir nokkrar vikur hversu mikil lækkunin verður nákvæmlega í einstökum vöruflokkum eða hjá einstökum ríkjum, þ.e. þegar tilboðin hafa verið birt og rædd.
    Tollalækkanir í ríkjum Evrópu skipta heldur ekki meginmáli fyrir Ísland þar sem við njótum nú þegar eða munum í náinni framtíð njóta fríverslunar á því svæði heldur skiptir þetta miklu meira máli að því er varðar tollalækkanir í öðrum aðildarríkjum GATT sem eru hátt á annað hundrað. Ísland hefur gert, auk krafna um lækkun tolla og afnám viðskiptahindrana á fiski og fiskafurðum, kröfur á hendur Bandaríkjunum um lækkun tolla á ullarvörum, fiskikössum, fiskvogum, fiskvinnsluvélum, veiðarfærum og vikri. Sömuleiðis kröfur á hendur Kanada um tollalækkun á sömu vörum og kröfur um tollalækkun á vatni gagnvart Ástralíu, Nýja-Sjálandi og Suður-Kóreu. Og í öllum þessum tilvikum hafa fulltrúar Íslands fylgt þessu eftir með tvíhliða viðræðum á fundum í Genf.
    Að því er varðar óbeinan ávinning er engu við að bæta það sem ég sagði að því er varðar sjávarútveginn, það er fyrst og fremst vonin um það og fyrirheit um það að nýr samningur, kenndur við þessa Úrúgvæ-lotu, muni verða það hreyfiafl sem keyrir efnahagskerfi heimsins upp úr þeirri djúpu lægð sem það hefur verið í á undanförnum árum.