Húsbréfakerfið

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:21:55 (1331)

[16:21]
     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að spyrja hæstv. félmrh. um afföll sem seljendur húsbréfa hafa orðið fyrir frá því húsabréfakerfið tók til starfa. Oft er hollt að rifja upp göngu yfir farinn veg og minna á fyrirheit og markmið sem sett voru á oddinn fyrir miklum kerfisbreytingum. Húsbréfakerfið blæs um þessar mundir á sitt fjórða afmæliskerti.
    Nú ætla ég ekki að draga það í efa að húsbréfakerfið er komið til að vera en nákvæmlega þessa dagana erum við að sjá að notendur þessa kerfis, ekki síst unga kynslóðin, hefur á sl. fjórum árum verið

féflett í gegnum afföll, húsbyggjendur hafa séð af allstórum hluta af húsnæðisláni sínu inn í okurvaxtahít hins íslenska peningamarkaðar. Ég vil því fara yfir fyrirheit sem gefin voru við upphaf kerfisins og minni á t.d. fréttabréf Alþfl. sem gefið var út 1989 en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Verða ekki afföll af húsbréfum? --- Margir óttast að afföll verði af húsbréfum í verðbréfaviðskiptum. Þessi ótti byggist á misskilningi. Um bréfin gilda aðrar reglur en flest önnur verðbréf á almennum markaði.``
    Síðan er farið yfir það í þremur liðum hvernig á að koma í veg fyrir það að um afföll verði að ræða.
    Í öðru fréttabréfi frá Húsnæðisstofnun er send út svohljóðandi auglýsing: ,,Húsbréf eru jafngildi peninga.``
    Hæstv. forseti. Þá er ég kominn að kjarna máls míns. Miðað við þessi fyrirheit og þá stöðu dagsins í dag að húsbréf seljast á yfirverði, öll afföll eru allt í einu horfin, hvers áttu og eiga þeir Íslendingar að gjalda sem hafa sætt afföllum í þessu kerfi frá meðaltali 12--15% upp í 24% mest 1991? Er í augsýn, hæstv. félmrh., nýr misgengishópur sem var óvart eins og staddur í svikamyllu og missti eina af hverjum 4 millj. út um gluggann eða í afföllin en verður næstu 25 árin að greiða þessa milljón með 6% raunvöxtum? Milljón sem kom honum að engu gagni í að borga efni eða vinnu við húsbygginguna?
    Ég vil því spyrja hæstv. félmrh.: Telur hún rétt að skoða stöðu þeirra einstaklinga sem sætt hafa mestum afföllum í húsbréfakerfinu á síðustu missirum? Telur hæstv. félmrh. að ýmsir þeir sem áttu að koma í veg fyrir afföll húsbréfanna með samningum og eftirliti hafi brugðist í starfi sínu á þessu tímabili?