Húsbréfakerfið

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:25:18 (1332)

[16:25]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Meðalafföll á ári hafa verið eftirfarandi á húsbréfum: 1989 7,5%, 1990 11%, 1991 19,3%, 1992 14%, 1993 11,7% miðað við tímabilið janúar til september. Miðað við daginn í dag eru engin afföll við sölu húsbréfa heldur eru þau seld á yfirverði.
    Ekki er hægt með nokkru móti að segja til um hversu mikið þau afföll sem hafa verið hverju sinni eru í krónum talið. Stór hluti húsbréfa sem notuð eru í fasteignaviðskiptum hefur ekki verið seldur á markaði eða eru notuð til að ganga í næstu fasteignakaup og er venjan í þeim viðskiptum að húsbréfin eru látin ganga áfram á fullu verði, þ.e. með verðbótum og vöxtum. Þannig koma afföll hvergi nærri fram af öllum útgefnum húsbréfum. Afföll við sölu húsbréfa jafngilda í raun fyrirframgreiddum vöxtum, þau segja til um hvað peningarnir kosta hverju sinni.
    Með upptöku húsbréfakerfisins var ákveðið að ríkissjóður hætti beinum útlánum með niðurgreiddum vöxtum og í staðinn yrðu aðilar á fasteignamarkaði að koma sér saman um nýtt greiðslufyrirkomulag með húsbréfum sem var skipt fyrir fasteignaveðbréf. Niðurgreiðsla vaxta var færð yfir í skattakerfið með vaxtabótum. Þannig er seljandi í raun og veru að lána kaupanda fyrir milligöngu húsbréfakerfisins en innri fjármögnun hefur verið mjög mikil í húsbréfakerfinu. Nefna má einnig að niðurgreiðsla vegna vaxta hefur í gegnum skattakerfið aukist um 1.400--1.500 millj. á föstu verði frá 1988. Þannig hafa vaxtabætur komið í stað niðurgreiddra vaxta.
    Ég tel mikilvægt að menn geri sér það ljóst að afföll hafa alltaf verið í húsnæðiskerfinu. Þau eru ekki nýtt fyrirbæri sem kom með húsbréfakerfinu. Það sem breyttist hins vegar er að afföllin eru alltaf sýnileg og augljós í húsbréfakerfinu en komu fram með öðrum hætti í eldra lánakerfi. Þetta gerir það að verkum að menn geta í húsbréfakerfinu reiknað með þessu strax í upphafi í stað þess að fá þau í bakið seinna.
    Fyrir húsbréfakerfið gengu fasteignaviðskipti þannig fyrir sig að íbúðaseljendur fengu yfirleitt 75% verðsins greidd á einu ári, greiðslu jafnað yfir árið og þær voru óverðtryggðar og vaxtalausar. Á útborgunartímabilinu gat verðbólga rokið upp og greiðslurnar því rýrnað misjafnlega mikið. Enginn vissi í raun hvert yrði raunvirði útborgunarinnar þegar upp var staðið. Þannig urðu afföll af þessum greiðslum, afföll sem enginn sá. Þessi afföll voru sjaldnast lægri en 10% sem seljandi íbúðar varð að bera. Reglan var einnig sú að það sem eftir var kaupverðsins, sem gat verið allt að 25%, var greitt með eftirstöðvaskuldabréfi. Þessi skuldabréf voru oftast til fjögurra ára með föstum vöxtum og óverðtryggð. Afföll voru nær alltaf af þessum bréfum því vextir náðu sjaldnast að halda í við verðlagsþróun. Þau voru einnig meiri ef seljandi þurfti að selja bréfin á markaði, þá gátu afföllin hæglega numið allt að helmingi af andvirði bréfsins. Þannig voru fasteignakaup í mikilli óvissu áður, enginn gat séð raunverð íbúðarinnar fyrir þegar kaup voru gerð. Þróun verðbólgunnar réð niðurstöðu.
    Einnig má minna á það að langur biðtími eftir lánum áður, eða tvö til þrjú ár, var kostnaðarsamur og var sá kostnaður í raun ígildi affalla. Sama gilti þegar lánið loks kom, þá var það greitt í tveim til þremur hlutum á 12 mánaða tímabili. Á þessum tíma þurfti að borga lántökukostnað vegna margra skammtímalána, háa vexti þeirra og stundum dráttarvexti og lögfræðikostnað vegna síendurtekinna framlenginga á skammtímalánum.
    Það má einnig minna á að það var mikil verðhækkun á fasteignamarkaðinum, t.d. í kjölfar 86-kerfisins, sem er í raun ekkert annað en afföll sem kom fram í allt að 10% verðhækkun á einu ári. Afföllin

í 86-kerfinu í formi hækkaðs fasteignaverðs gátu því numið allt að 500--600 þús. kr. á meðalíbúð.
    Allt þetta ber að hafa í huga því stundum er eins og afföll á húsnæðislánum hafi fyrst verið uppgötvuð með húsbréfakerfinu.