Húsbréfakerfið

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:30:40 (1334)


[16:30]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það má margt um þetta húsbréfakerfi segja og þá hugsun sem það byggist á, markaðsvextina sem öllu eiga að ráða. Ég vil minna á að nýlega hefur ráðherra gefið út reglugerð um greiðsluerfiðleikalán vegna þeirra sem hafa misst atvinnu sína eða átt við langvarandi veikindi að stríða. Þar er þeim hópi lántakenda boðið upp á skuldbreytingu lána sinna að uppfylltum tilteknum skilyrðum. En sú skuldbreyting á að sjálfsögðu að fara fram með sama hætti og áður var í eldri greiðsluerfiðleikalánaflokki með húsbréfum þar sem markaðsvextirnir eiga að ,,blíva``, þar sem fólkið á að borga, ekki bara með verðtryggðu skuldabréfi og 6% vöxtum, heldur með afföllum að auki eins og áður var til ríkisins vegna skulda hjá ríkinu sjálfu. Það má nefna eins og kom fram hjá hæstv. fyrirspyrjanda að menn þurftu að borga Húsnæðisstofnun ríkisins allt að 24% af fjárhæðinni í afföll. (Forseti hringir.) Ríkinu sjálfu. Nú hefur það komið á daginn að þetta virðist að líkindum ( Forseti: Tímanum er lokið, hv. þm.) hafa verið algjör óþarfi, virðulegi forseti, því að ríkið gat bara þá eins og nú farið á erlendan markað (Forseti hringir.) og lækkað vaxtastigið.