Húsbréfakerfið

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:34:44 (1336)

[16:34]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég vil segja það að þessar tölur sem komu fram hjá síðasta ræðumanni um 7 milljarða kr. sem hafi komið til vegna affalla, þetta eru náttúrlega bara tölur sem eru teknar upp úr hatti og eru ekkert marktækar. Hv. síðasti ræðumaður gerir ekkert ráð fyrir þeirri innri fjármögnun sem ég gerði

grein fyrir í mínu máli, þ.e. þegar húsbréfin ganga upp í næstu fasteignaviðskipti og kaupendur bera ekki afföllin og hann hefur ekki tekið með í sína útreikninga hve stór hluti af húsbréfunum hefur ekki farið út á markað.
    Mér finnst að hv. þm. ætti líka að leika sér að tölum og reikna út afföllin, t.d. í 86-kerfinu. Ég er ansi hrædd um að það yrðu nokkuð háar tölur sem þar kæmu upp.
    Varðandi það sem kom fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, hvort vaxtabætur yrðu hækkaðar vegna þeirra sem bera 6% fasta vexti á húsbréfum þá er því til að svara að Þjóðhagsstofnun er nú að reikna út fyrir mig hve stór hópur þeirra sem eru með þessi 6% bréf og hafa meðaltekjur og lágar tekjur, að hve miklu leyti vaxtabætur bæta þetta 1% milli 5 og 6% að fullu. Ég vil sjá hvaða niðurstaða kemur út úr því máli áður en hugað verður að því hvort hækka eigi vaxtabæturnar vegna þess að það er jú fyrst og fremst fólk með lágar og meðaltekjur sem við viljum verja kjörin hjá.
    Ég vil nefna að það hafa verið gefnar út reglur um skuldbreytingar hjá Byggingarsjóði ríkisins sem heimilar aðstoð eða skuldbreytingu til handa því fólki sem hefur lækkað mjög í launum vegna atvinnuleysis eða veikinda. Greiðslumatið, sem er gott og gilt út af fyrir sig, sér náttúrlega ekki fyrir því þegar fólk lækkar mikið í tekjum eða verður fyrir miklu atvinnuleysi, en til þess að koma til móts við þetta fólk hefur verið gefin út reglugerð sem heimilar skuldbreytingar hjá Byggingarsjóði ríkisins og það hefur verið gert samkomulag við banka og lífeyrissjóði um sameiginlegt átak á þessum forsendum.