Laun lækna á sjúkrahúsum

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:48:20 (1345)

[16:48]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þau voru samt ekki eins og ég bjóst við. Ég bjóst við því að hann skildi betur fsp. mína. Ég er að tala um þá sem eru í fullri vinnu við sjúkrahússtofnanir fyrst og fremst. Það eru fyrst og fremst þeir sem hafa fengið þessi tvöföldu laun. Og ég vil ítreka að mér þykir það lítill sparnaður í heilbrigðisgeiranum að láta sjúklinga borga fyrir aðgerðir en þær renni síðan sem extrabónus til lækna.
    Að vísu kom það fram í máli ráðherra að hann muni láta Ríkisendurskoðun skoða þessi mál. En það er greinilegt að ekkert eftirlit er með þessu í dag, t.d. hvort þessir sérfræðingar uppfylli 40 tíma vinnuviku með því að vera kannski í þessum svokölluðu ferliverkefnum 4--5 tíma á dag.
    Eins og gefur að skilja þá er andrúmsloftið á þeim stofnunum mjög slæmt, þar sem hluti starfsfólks getur tekið svona þóknanir í sinn vasa, þó það sé fullkomlega löglegt samkvæmt þessari reglugerð. Þar að auki, og vil ég benda ráðherra sérstaklega á það í lokin, er þarna verið að mismuna sjúklingum verulega. Sjúklingur sem er lagður inn á sjúkrahús í tvo sólarhringa, borgar ekki neitt fyrir þessa aðgerð en sjúklingur sem er lagður inn í einn sólarhring, borgar fyrir þessa aðgerð. Þetta er auðvitað alveg ólíðandi.