Styrkir til tannviðgerða

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:52:34 (1347)

[16:52]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegi forseti. Í tengslum við fjárlög fyrir árið 1992 var samþykktur bandormur á þinginu og í þeim bandormi var felld niður þátttaka Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði vegna tannréttinga. Þó var heimilt samkvæmt þessum bandormi, eins og segir í 18. gr.: ,,Að veita styrk til aðgerða hjá tannlækni, umfram það sem 44. gr. nær til,`` --- sem er svona almennt um tannviðgerðir --- ,,vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Ráðherra setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að fengnum tillögum tryggingaráðs``.
    Það segir hér í þessari grein að það sé ráðherra sem skuli setja reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að fengnum tillögum tryggingaráðs. Það gefur auga leið að setja þarf reglur þegar verið er að breyta lögunum. Og þegar verið er að tiltaka að veita skuli styrk til tannréttinga bara í ákveðnum tilvikum, þá þarf skilgreiningu á því hvaða tilvik er þarna um að ræða og það þarf að ákveða upphæð eða hlutfall styrksins af þeim kostnaði sem til fellur vegna aðgerðarinnar.
    Síðast þegar ég vissi til, sem er ekki fyrir ýkja löngu síðan, það eru kannski orðnar þrjár vikur, þá var ekki búið að setja þessar reglur sem þó var kveðið á um í lögum nr. 1/1992.
    Þess vegna spyr ég ráðherra:
    Hvað líður setningu reglna um styrki til aðgerða hjá tannlækni vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa eða sjúkdóma, sbr. 18. gr. laga nr. 1/1992?
    Seinni spurningin sem ég er með á fsp. minni leiðir eiginlega að þeirri fyrri vegna þess að frá 15. mars 1992 hafa væntanlega engar endurgreiðslur vegna tannréttinga verið samþykktar nema um þessar svokölluðu alvarlegu afleiðingar, meðfædda galla, slys eða sjúkdóma sé að ræða, þ.e. hafi verið um ný tilvik að ræða. Hafi verið um tilvik að ræða þar sem tannrétting hafi komið til sögunnar eftir 15. mars 1992, þá hafi ekki verið tekið þátt í kostnaði nema það séu alvarlegar afleiðingar meðfæddra galla, slysa eða sjúkdóma.
    Ef engar reglur hafa verið settar á grundvelli þeirrar breytingar sem gerð var á almannatryggingalögunum í janúar 1992 og ég tiltók áðan, þ.e. í bandorminum, eftir hverju hefur þá verið farið frá því að þessi lög tóku gildi? Eins og ég segi í fsp. minni, eftir hvaða reglum hefur verið farið við mat á þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við tannréttingar sem hófust eftir 15. mars 1992? Hafa verið einhverjar reglur í gildi um þetta eða hefur handahóf eitt ráðið? --- Þetta eru mínar fyrirspurnir til ráðherra.