Styrkir til tannviðgerða

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:58:48 (1350)

[16:58]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég hjó einmitt eftir því sama og hv. síðasti ræðumaður, sem fram kom í máli hæstv. heilbrrh., að það hefur ekki verið gengið frá útgáfu reglugerðar til að fylla út í ákvæði laga sem sett eru í ársbyrjun 1992. En á þeim tíma hefur verið notað ákvæði reglugerðar sem sett er samkvæmt ákvæðum laga frá 1991, hafi ég tekið rétt eftir. Ég spyr þá: Er þá einhver ástæða til að setja reglur núna fyrst hægt er að nota reglugerðina frá 1991, árið 1992 og 1993, er ekki bara hægt að nota hana áfram? Ef ekki, verður þá ekki að breyta ákvörðunum sem teknar voru á grundvelli reglugerðar frá 1991 eftir að hinar reglurnar hafa verið settar, því þær hljóta væntanlega að vera eitthvað öðruvísi en þær sem menn hafa notað fram til þessa? Verður þá ekki að leyfa þeim sem hafa þurft að sæta úrskurði samkvæmt þessum reglum að fá endurupptöku á nýju reglunum?