Ferðakostnaður vegna tannréttinga

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:04:11 (1353)

[17:04]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Spurt er: ,,Eftir hvaða reglum er farið um þátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við ferðir sjúklings til tannréttinga?``
    Þátttaka Tryggingastofnunar ríkisins í kostnaði við ferðir fer eftir reglugerð nr. 74/1991, um ferðakostnað sjúklinga og aðstandenda þeirra innan lands. Hvað varðar tannréttingar segir þar í 1. gr.:
    ,,Þurfi sjúklingur að takast ferð á hendur til meðferðar eða óhjákvæmilegs eftirlits hjá lækni, tannlækni eða í sjúkrahúsi (með eða án innlagningar) eða til þess að njóta óhjákvæmilegrar meðferðar samkvæmt tilvísun læknis hjá heilbrigðisstéttum, sem sjúkratryggingar hafa samið við, taka sjúkratryggingar þátt í ferðakostnaði samkvæmt reglum þessum, enda sé um að ræða eftirtalda alvarlega sjúkdóma og meðferð þeirra: Illkynja sjúkdóma, nýrnabilun, alvarlega augnsjúkdóma, brýnar lýtalækningar, bæklunarlækningar barna og tannréttingar vegna meiri háttar galla eða alvarlegra tilefna. Enn fremur er heimilt að endurgreiða vegna annarra sambærilegra sjúkdóma.``
    Þessu til viðbótar er greitt fyrir þá sem eru í tannréttingum vegna tannskekkju sem hvorki telst vera meiri háttar né alvarlegs eðlis, en þá aðeins að tannréttingar hafi hafist fyrir 15. mars 1992. Þátttaka í ferðakostnaði vegna þessara síðasttöldu er lægri en fyrir þá sem fyrst var getið, um 50%. Það byggir eins og fyrirspyrjandi gat um hér í inngangi á 4. gr. nefndrar reglugerðar frá 12. febr. 1991 sem var undirritað af þáv. heilbr.- og trmrh., Guðmundi Bjarnasyni, þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Sjúkratryggingar endurgreiða 50% af ferðakostnaði sjúklings skv. 1. mgr. 3. gr. og sjúklingur ber 50% án sérstaks hámarks.``