Ferðakostnaður vegna tannréttinga

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:08:12 (1356)

[17:08]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Þau voru í sjálfu sér skýr, þ.e. að farið væri eftir reglugerðinni frá 1991. Ég fagna því að það skuli a.m.k. formlega séð vera farið eftir þeirri reglugerð, en ráðherra vísaði í 1. gr., það væri farið eftir henni, síðan væri 4. gr. notuð þannig að tekið væri þátt í ferðakostnaði hjá því fólki sem hefði hafið tannréttingar fyrir 15. mars 1992. Ég fæ alls ekki séð að reglugerðin heimili Tryggingastofnun að takmarka þátttöku í ferðakostnaði með þessum hætti. Það er hvergi í þessari reglugerð minnst á þessa dagsetningu, 15. mars 1992. Reglugerðin er alveg skýlaus þannig að þegar um er að ræða ferðir sjúklinga til tannréttinga, sem hvorki geta talist vera vegna meiri háttar galla né alvarlegs tilefnis, sbr. 1. gr., taka sjúkratryggingar þátt í ferðakostnaði samkvæmt reglum þessum með eftirfarandi skilyrðum:
    1. Sjúkratryggingar endurgreiða 50% af ferðakostnaði sjúklings og sjúklingur ber 50% án sérstaks hámarks.
    2. Endurgreiðslur á sérstöku fargjaldi fylgdarmanns miðast við að sjúklingur sé 12 ára eða yngri.
    Reglurnar eru alveg skilyrðislausar þannig að það er réttur fólks að fá endurgreiddan ferðakostnað. Síðan hefur verið búin til regla einhvers staðar að þetta skuli miðast við 15. mars 1992. Ég sé ekki að reglur heimili þetta.
    Ég vil benda á það hér að það er mjög brýnt að fólk sitji við sama borð hvað þetta varðar vegna þess að það er þannig að tannréttingar eru stundaðar í Reykjavík og kannski á Akureyri og svo hafa einhverjir farið út um land. Mér skilst á fólki sem býr úti á landi að ef það er með börn t.d. undir 12 ára aldri, þá sé ferðakostnaðurinn u.þ.b. 80 þús. á ári, bara ferðakostnaðurinn vegna barnsins í tannréttingar. Ef fylgdarmaður fer með, þá sé þetta um 270 þús. kr. á ári sem það kostar fólk úti á landi að fara til tannréttinga fyrir utan svo sjálfan kostnaðinn við tannréttingarnar sem fólkið verður að bera núna að fullu og öllu sjálft, ef ekki er um alvarleg tilvik að ræða. Þarna er því gífurleg mismunun á ferðinni fyrir fólk, hvort það býr í Reykjavík, Akureyri eða annars staðar á landinu.