Friðunaraðgerðir á Breiðafirði

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:15:19 (1359)

[17:15]
     Fyrirspyrjandi (Sturla Böðvarsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 192 hef ég borið upp fsp. til hæstv. sjútvrh. um friðunaraðgerðir á Breiðafirði. Fyrri hluta sjöunda áratugarins var mikil þorskveiði í net á miðum við innanverðan Breiðafjörðinn. Einkum voru þar svokallaðar lænur sem veitt var í, en á þessum slóðum veiddu einkum bátar frá Stykkishólmi en einnig var um að ræða báta frá Patreksfirði og eitthvað um að bátar frá öðrum verstöðvum við Breiðafjörðinn legðu þarna sín þorskanet.
    Á þessu svæði, í þessum svokölluðu lænum og þar um kring, veiddist mjög stór þorskur og á skömmum tíma var mjög góð veiði á þessum svæðum og má m.a. nefna það að á þremur árum, árunum 1963, 1964 og 1965, veiddi einn bátur að meðaltali 800 lestir á vertíðinni á fáeinum vikum. En að frumkvæði sjómanna við Breiðafjörð var gerð samþykkt sem fól í sér að banna veiðar með netum, botnvörpu og dragnót með öllu innan línu sem dregin var úr Selskeri framan í Skor.
    Svo sem vænta mátti voru skiptar skoðanir um þessa ráðstöfun, m.a. meðal fiskimanna og e.t.v. ekki síður meðal fiskifræðinga um nauðsyn þess að standa að þessari lokun eða þessum friðunaraðgerðum. Samt sem áður varð það niðurstaðan að loka þessu svæði og svo er enn þann dag í dag.
    Ekki síst vegna þess að fiskifræðingar hafa ekki gefið út neinar afgerandi umsagnir um árangur af þessum friðunaraðgerðum, þá hef ég, virðulegi forseti, leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. sjútvrh.:
    ,,Hafa friðunaraðgerðir á Breiðafirði innan línu sem dregin er úr Selskeri í Skorarvita borið árangur að mati fiskifræðinga?``