Friðunaraðgerðir á Breiðafirði

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:20:24 (1361)

[17:20]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa borið þessa fsp. fram en ástæðan fyrir því að ég nýti mér rétt minn til þess að gera hér stutta athugasemd er sú að það kemur mér á óvart að friðunaraðgerðir eins og þessar sem staðið hafa áratugum saman skuli ekki hafa verið rannsakaðar með neinu móti og það skuli koma fram í svari Hafrannsóknastofnunar að þeir viti nákvæmlega ekki neitt um það hvort þessar friðunarráðstafanir hafi skilað einhverjum árangri eða ekki. Ég segi alveg eins og er að það hlýtur að vera ástæða fyrir hv. Alþingi að skoða málin betur og það verði myndaðar einhvers konar reglur eða stefna í því að kanna til hlítar hvað við erum að gera í kringum landið í friðunarskyni og hvort það ber þá yfirleitt nokkurn árangur.