Rannsóknir á áhrifum einstakra veiðarfæra

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:37:23 (1369)

[17:37]
     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þetta bætist nú enn við þá skoðun sem ég hef sett fram áður að Hafrannsóknastofnun hefur í raun og veru ekki litið á það sem hlutverk sitt að horfa yfir það svið allt sem viðkemur stjórn fiskveiðanna og nýtingu á lífríkinu í kringum landið. Við höfum ítrekað heyrt í svörum frá fiskifræðingum við spurningum um lík efni og verið er að tala hér um að þeir líti ekki á það sem sitt hlutverk að meta t.d. mismunandi tegundir af veiðarfærum og mismunandi umgang við lífríkið. Það er t.d. að ósannað sé að þó að rykist upp úr botninum hvort það valdi skaða. Og það að svara því til við 2. lið þessarar fsp. að það liggi ekki fyrir upplýsingar um hagkvæmni, það sé utan við verksvið Hafrannsóknastofnunar, --- ég held að það sé ástæða fyrir hv. Alþingi að taka það til umræðu hvað eigi að vera verksvið stofnunarinnar.