Flutningur útibús Hafrannsóknastofnunar frá Ólafsvík

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:48:47 (1374)

[17:48]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ástæðan fyrir því að útibú Hafrannsóknastofnunar í Ólafsvík hefur til bráðabirgða verið flutt um set er sú að erfiðlega hefur gengið að tryggja starfsmanni viðunandi húsnæði í Ólafsvík. Það hafði verið svo um nokkurn tíma og eftir því leitað sl. vor við sjútvrn. að það heimilaði flutning útibúsins af þessum sökum. Í maímánuði taldi ráðuneytið þetta ekki fullreynt og skrifaði þess vegna Hafrannsóknastofnun bréf þar sem segir m.a. þetta:
    ,,Miðað við þær upplýsingar er fyrir liggja telur ráðuneytið ekki forsendur til að flytja útibú stofnunarinnar frá Ólafsvík. Telur ráðuneytið rétt að Hafrannsóknastofnunin kanni þau tilboð um leigu íbúðarhúsnæðis í Ólafsvík sem bæjarstjóri gat um í fyrrnefndu samtali, þar á meðal hvort leigukjör og ástand húsnæðis þess er býðst frá 1. júlí sé viðunandi.``
    Þegar á daginn kom að viðunandi úrlausn fékkst ekki sneri Hafrannsóknastofnun sér á ný til ráðuneytisins og að höfðu samráði við ráðuneytið skrifaði Hafrannsóknastofnun Ólafsvíkurkaupstað svohljóðandi bréf 20. ágúst:
    ,,Nú hefur verið tekin sú ákvörðun að flytja starfsemi útibús Hafrannsóknastofnunar í Ólafsvík til bráðabirgða í Stykkishólm. Ákvörðun þessi er tekin í fullu samráði við sjávarútvegsráðuneytið. Gert er ráð fyrir að útibúið starfi næstu 2--3 árin í Stykkishólmi en flytjist þá aftur til Ólafsvíkur. Ástæða þessarar ákvörðunar er sú að útibússtjóranum hefur ekki tekist að finna viðunandi húsnæði fyrir sig í Ólafsvík. Sú lausn sem bent er á í bréfi yðar frá 10. ágúst er ekki ásættanleg enda um allt annað húsnæði að ræða en það sem áður hefur verið rætt um. Hafrannsóknastofnun telur að allt hafi verið reynt til þess að leysa húsnæðisvandamál útibússtjórans í Ólafsvík. Þar sem lausn hefur ekki fundist hefur ákvörðun um flutning til bráðabirgða verið tekin.``
    Í þessum tveimur bréfum kemur skýrt fram að það var fullur vilji og ásetningur ráðuneytisins að útibúið yrði áfram starfrækt í Ólafsvík. Þegar Hafrannsóknastofnunin taldi hins vegar útséð um að unnt væri að útvega húsnæði með viðunandi hætti fyrir starfsmenn stofnunarinnar þá taldi ég rétt að fallast á þá tilhögun að útibúið yrði fært til bráðabirgða í þeim tilgangi að tryggja áframhaldandi rekstur þess. En eins og hv. þm. er e.t.v. kunnugt þá var um tíma erfitt að fá menn til starfa við þetta útibú. Um tveggja ára skeið var það án starfsmanns og af hálfu ráðuneytisins og Hafrannsóknastofnunar var lögð á það áhersla að þessi starfsemi gæti haldið áfram óhindruð á svæðinu og þess vegna var horfið að því að samþykkja

þessa bráðabirgðaráðstöfun.