Flutningur útibús Hafrannsóknastofnunar frá Ólafsvík

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:52:04 (1375)

[17:52]
     Fyrirspyrjandi (Jóhann Ársælsson) :
    Virðulegur forseti. Mér þykir miður að hæstv. ráðherra víkur sér undan því að svara á hvaða lagagrunni hann byggir ákvörðun sína að flytja þessa stofnun á milli staða. Ég óska eftir því eindregið að hann geri okkur grein fyrir því hér með stoð í hvaða lögum hann tekur þessa ákvörðun.
    Síðan langar mig til að fá svar við því, er það þá þannig að ef ekki tekst að leysa húsnæðismál starfsmanna viðkomandi stofnana þá geti það verið niðurstaðan að flytja þær stofnanir á milli svæða? Erum við þá ekki búin að finna alveg nýja aðferð til þess að flytja stofnanir um landið, þ.e. að fá starfsmennina til að flytja og þá komi stofnanirnar á eftir og hæstv. ráðherrar séu tilbúnir að stuðla þannig að flutningi stofnana um landið? Mér er ekki alveg ljóst hvernig menn ætla að halda utan um þessi mál ef það getur gengið með þessum hætti sem við höfum séð í þessu tilfelli. Ég tel að það hafi alls ekki verið staðið eðlilega að þessu máli.
    Það er líka ástæða til að vekja athygli á því að það mátti skilja hæstv. ráðherra þannig að það hafi verið vegna þess að bæjarstjórnin í Ólafsvík gat ekki útvegað viðkomandi starfsmanni húsnæði sem hafi þurft að flytja þessa stofnun. Það er ekki þannig að það sé skylda sveitarfélaganna í landinu að skaffa starfsmönnum Hafrannsóknastofnunar húsnæði og það er hvergi í gildi á landinu þannig fyrirkomulag. Það er ástæða til þess að gagnrýna þessa gerð og ég óska eindregið eftir því að hæstv. ráðherra geri okkur grein fyrir því á hv. Alþingi, á hvaða lagagrunni hann byggir þessa ákvörðun sína.