Flutningur útibús Hafrannsóknastofnunar frá Ólafsvík

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:54:10 (1376)

[17:54]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að það er engin lagaskylda á sveitarfélögum að greiða fyrir úrlausn í húsnæðismálum af því tagi sem hér er verið að fjalla um. Hafrannsóknastofnun og starfsmanni hennar hafði ekki tekist að finna lausn á þessum húsnæðisvanda. Kaupstaðurinn sem í hlut á bauðst þá til þess að greiða fyrir því og það tókst ekki heldur. Það liggur fyrir að sjútvrn. féllst ekki á tilflutninginn fyrr en þær tilraunir höfðu verið reyndar algjörlega til þrautar. Þá fyrst var á það fallist, þannig að ég vísa algjörlega á bug óeðlilegum vinnubrögðum af hálfu ráðuneytisins í þessu efni. Það sem fyrst og fremst vakti fyrir því var það að þessi rannsóknarstarfsemi gæti farið fram á Snæfellsnesi og að ekki kæmi til þess að hún félli niður eins og gerðist á árunum 1988--1990.
    Um lagagrundvöllinn er það að segja að hann er alveg skýr. Hv. þm. vitnaði sjálfur í þá lagagrein sem um þetta fjallar og kveðið er á um það að Hafrannsóknastofnun geti starfrækt útibú samkvæmt ákvörðun ráðherra og Alþingis að fengnum tillögum forstjóra stofnunarinnar og stjórnar. Það hefur verið litið svo á að samþykki ráðherra og Alþingis lúti fyrst og fremst að því að heimila fjárveitingu í þessu skyni og fjármunum sé varið til þess að starfrækja útibú en Alþingi hefur ekki tekið sjálfstæðar ákvarðanir um staðsetningu. Hér er heldur ekki verið að hverfa frá upphaflegri staðsetningu útibúsins til lengri tíma, það er verið að gera bráðabirgðaráðstöfun til skamms tíma vegna húsnæðisörðugleika en ekki að taka endanlega ákvörðun um flutning á útibúinu. Ég tel að ákvörðunin sem Hafrannsóknastofnun tók og ráðuneytið samþykkti sé í fullu samræmi við gildandi lög.