Vegalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 13:57:21 (1383)

[13:57]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er ekki nóg með að það sé búið að binda ríkissjóði bagga sem eru 530--560 millj. kr. á ári nú hin næstu ár heldur til viðbótar, út af því sem hv. þm. sagði, skal ég minna á að með undirskriftinni á Herjólfi var farið fram úr þeim lántökuheimildum sem Alþingi hafði veitt. Ég vil enn fremur minna á að kostnaður við þær framkvæmdir sem óhjákvæmilegar voru í Þorlákshöfn og Vestmannaeyjum voru áætlaðar um 250 millj. kr. á árinu 1992 og samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er skrifuð í febrúar 1993 stendur: ,,og skiptist hann þannig að 156 millj. kr. eru vegna Þorlákshafnar og 95 millj. kr. vegna Vestmannaeyjahafnar``.
    Þegar ég tók þessi mál upp gagnrýndi ég að Alþingi skyldi standa þannig að málum að fara í fjárfestingu af þessu tagi án þess að leggja samtímis til fjármagn af fjárlögum til að standa undir endurnýjuninni, þannig að peningarnir kæmu ekki allir eftir á og þingmenn yrðu samtímis að horfast í augu við það að það væru ekki ótakmarkaðir peningar sem við hefðum yfir að ráða. Það var á þessum grundvelli sem ég tók málið upp og í því fólst ekki nein aðdróttun að hv. þm. Hins vegar er það svo ef talað er um þessa þungu pinkla sem við berum vegna ferjubátana þá er eins og komið sé við viðkvæman streng í sálum sumra og þá verður bara að hafa það. Það er óhjákvæmilegt að koma einstaka sinnum að því þegar við sitjum uppi með fastan útgjaldapóst sem er yfir hálfur milljarður kr. á ári og ríkisstjórnin getur ekkert við því gert.