Vegalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 13:59:09 (1384)

[13:59]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað afarlítið upplýsandi þegar hæstv. ráðherra endurtekið velur þá aðferð að slengja hér saman öllu, annars vegar rekstrarstyrkjum sem viðgengist hafa um áratuga skeið og hafa verið af umtalsverðri stærðargráðu og hins vegar tímabundið auknum stofnkostnaði vegna þess að ráðist hefur verið í gagngera endurnýjun ferjuflotans í landinu. En staðreyndin er bara sú að þetta skilur allur almenningur og allir þingmenn. Það liggur alveg í hlutarins eðli að þessi stofnkostnaður hlaut að vaxa tímabundið og verða mikill um nokkurra ára skeið í kjölfarið á þessu átaki. En er það ekki nokkurs virði að fá inn í landið og í rekstur skip sem er jafnmyndarlegt og vel búið og getur jafnvel leyst sitt hlutverk af hendi og Herjólfur nú og vonandi næstu þrjátíu árin með farsælum hætti?
    Hæstv. samgrh. horfir algjörlega fram hjá þeirri staðreynd að hér er um varanlega fjárfestingu að ræða til að halda uppi samgöngum á mjög mikilvægri samgönguleið, eða hvað? Ber að skilja endurteknar ræður hæstv. samgrh. svo að hann sé á móti þessum samgöngum til Vestmannaeyja? Hann telji Herjólf of gott skip fyrir Vestmannaeyinga? Ég held að hæstv. samgrh. ætti að vera maður til að koma hérna upp og segja það. Segja það að hann telji að Vestmannaeyingum hefði verið það rétt mátulegt að hafa bara sinn gamla kopp enn þá áfram með einni skitinni vél og þeim öryggisbúnaði sem þar var um borð. Eða hver er afstaða hæstv. samgrh. í þessu efni? Það er engin speki að koma hér upp og leggja saman þessar tölur og segja að þetta séu miklir peningar. Auðvitað eru þetta miklir peningar. En það hefur alltaf kostað mikla peninga að halda uppi þessum samgöngum á sjó og það verður það alltaf ef menn ætla að verða menn til þess að búa Vestmannaeyingum, búa Grímseyingum, að búa Breiðfirðingum mannsæmandi samgöngur. Það er greinilega það sem hæstv. núv. samgrh. er ekki. ( Samgrh.: Má bera af sér sakir?)