Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 14:17:32 (1394)

[14:17]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Frv. til hafnalaga er nú aftur komið til umræðu. Í frv. felast veigamiklar breytingar á hafnalögum og tel ég að margar þeirra séu mjög til bóta. Spurning er jafnvel um hvort þær eru nægilega róttækar. Ég tel að kominn sé tími til að endurskoða hafnalög mjög róttækt eins og flest annað í þjóðfélaginu. Það er verið að skoða alla hluti mjög nákvæmlega og mér finnst að til þessarar endurskoðunar á hafnalögum mætti kalla fleiri og þá er ég að tala um sjómenn og útvegsmenn ekki hvað síst sveitarstjórnarmenn sem um langan tíma hafa fjallað um þessi mál.
    Fyrstu veigamiklu breytingarnar í þessu frv. sem ég tel mjög áhugaverðar eru í 8. gr. eins og kom fram hjá hæstv. samgrh. þar sem gert er ráð fyrir að hafnir geti verið reknar í hlutafélagsformi. Það vakna að vísu mjög margar spurningar við þessa grein frv. og þá fyrst og fremst hvort það sé akkur fyrir fyrirtæki að eignast hlut í höfnum. Og ég spyr mig kannski sérstaklega vegna þess að það hafa verið afar ströng ákvæði af ríkisins hálfu varðandi hafnirnar og þess vegna spyr ég hæstv. samgrh. hvaða akk hann geti séð fyrir fyrirtæki að setja pening til hafnarmannvirkja og hvaða frelsi væri þá í því fólgið fyrir fyrirtæki sem mundi eignast hlut í höfn? Mundi það t.d. fá eitthvað að ráða um breytta framkvæmdaáætlun? Það er eitt sem menn mundu trúlega fyrst spyrja sig að og síðan mundu menn spyrja sig hvort þeir hefðu eitthvað með gjaldskrá hafna að gera. Ég minni á að ekki alls fyrir löngu tóku Vestmanneyingar þá ákvörðun að lækka gjaldskrá sína, vörugjaldskrá sína og ég held að fleiri munu það en ég að það ætlaði allt vitlaust að verða. Það væri ekkert frelsi til þess. Og meira að segja gekk það svo langt að ríkisvaldið hótaði bæjarfélaginu í Vestmannaeyjum að það yrði af framlögum frá ríkissjóði ef það væri bara ekki stillt og prútt og færi eftir því sem því væri sagt. Þess vegna spyr maður sig að því hvaða frelsi er í þessu falið því að menn láta að sjálfsögðu ekki peninga, það lítur vel út, en menn láta sjálfsagt ekki peninga til hafna, hvorki fyrirtæki né einstaklingar nema fá einhverju ráðið.
    Þá kemur næsti liður sem er líka mikil grundvallarbreyting. Það er í sambandi við þessi hafnasamlög sem mér finnst vera mjög áhugaverð og ég er viss um að það getur sparað verulega fjármuni að sameina rekstur hafna. Og það er auðvitað hluti þessara heildarhugmynda að sameina sveitarfélög og þrátt fyrir að sveitarfélög verði ekki sameinuð þá tel ég mjög miklar líkur á að það verði hægt að ná verulegri hagræðingu í sambandi við sameiningu hafna. Þar er ég fyrst að hugsa um að hafnirnar geta skipt með sér og að yrði frjálsari aðgangur almennt og menn mundu hugsa öðruvísi í sambandi við framkvæmdir ef þessir hafnir yrðu í ríkari mæli sameinaðar þar sem það á við.
    Eins og ég sagði áðan þá tel ég ýmislegt í þessu frv. mjög áhugavert. Það er eitt sem er að vísu ekki nýtt en það verður lögleitt ef þetta frv. verður að lögum. Það er 25% aukavörugjald sem á að renna til hafnabóta í Hafnabótasjóð og verður þá sem lánsfé. Menn hafa mótmælt þessum aukaútgjöldum og þó mönnum hafi ekki verið lofað því hingað til, þá hefur alltaf verið talað um að þessi aukaútgjöld væru til bráðabirgða en hér er nú gert ráð fyrir að þetta verði lögfest.

    En það er annað sem vekur athygli þegar maður skoðar hafnir landsins almennt og líka sér í lagi hvaða fjármagn hafnirnar hafa umleikis því það er afskaplega mismunandi. Að sjálfsögðu sker Reykjavíkurhöfn sig algerlega úr, og er það ekki óeðlilegt sökum stærðar sinnar, og Hafnarfjarðarhöfn en ef maður lítur á almennar fiskihafnir og síðan loðnuhafnir þá er sá munur alveg geysilega mikill. Og hvers vegna er það? Hvers vegna er svona mikill munur á almennum fiskihöfnum sem ekki geta tekið til sín loðnu og loðnuhafna? Það er vegna þess sem ég var að ræða á síðasta þingi við hæstv. samgrh. og mér fannst samgrh. hafa mikinn skilning á og er það að menn eru að borga fyrir útflutning á loðnu helmingi meira en fyrir frystar afurðir. Þó svo að þetta hafi batnað, ætla ég að þakka og hrósa hæstv. samgrh. fyrir að hann hefur tekið tillit til þess þó mismunurinn sé enn mikill, enn afar mikill en samgrh. hefur þó í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til aðstoðar atvinnulífinu aðeins komið þarna til móts við þetta, þá tek ég sem dæmi að ef útflutningsverðmæti frystitogara er 12 millj., þá greiðir þessi togari til hafnarinnar 50 þús. kr. í hafnargjöld. Ef þetta væri aftur á móti loðnuskip sem væri með 12 millj. kr. útflutningsverðmæti, þá mundi það skip borga yfir 100 þús. kr. Nú geta hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn skoðað það hvort er betri afkoma í frystiskipum eða loðnuskipum. Það vita allir að það er betri afkoma á frystiskipum þannig að misræmið er mjög mikið, en misræmið er mest fyrir hafnirnar sjálfar. Og það misræmi er óásættanlegt og þá kann einhver að spyrja: Eigum við þá ekki að hækka þetta á alla? Það er ekki óeðlilegt að það verði spurt að því. Og ég er alveg viss um það að ef það væri reynt, þá mundu þau skip sem hafa möguleika á að sigla með afla gera það alveg örugglega og ekki landa í höfnunum heima. Af því að ég var að tala áðan um að þetta sérstaka vörugjald væri notað til hafnabóta, þá fyndist mér ekkert óeðlilegt að sá munur sem er á gjaldi loðnuskipa og frystiskipa væri notaður til mengunarvarna vegna þess að loðnuverksmiðjurnar hafa enga möguleika til þess að bæta sín mengunarmál með þeim gjöldum sem þær borga. Og það er mín tillaga til hæstv. ráðherra að skoða það.
    Eins og ég sagði í upphafi þá tel ég vera mikilvægt að skoða róttækt hafnalög almennt. Svo róttækt, sagði nú einn útgerðaraðili úr Vestmannaeyjum á fundi fiskvinnslustöðva í Stykkishólmi, að hann teldi vera ástæðu til þess að skoða hafnarframkvæmdir sérstaklega með það fyrir augum að stöðva þær um sinn og leggja þá miklu fjármuni sem fara til hafnarframkvæmda í hafrannsóknir sökum þess að það er alltaf minni og minni afli að koma til hafnanna en við framkvæmum alltaf jafnmikið í höfnunum. Spurningin er hvort það mundi ekki gefa okkur meira til lengri tíma litið að leggja meira til hafrannsókna og kannski minna til hafna.