Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 14:27:11 (1395)

[14:27]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Varðandi loðnuhafnir er það að segja að þær hafnir sem þar eiga helst í hlut töldu sig ekki mega missa þær tekjur sem þær hafa haft, en ég tek undir með hv. þm. að það er vissulega ástæða til þess að fylgjast vel með þeim málum.
    Ég vil í annan stað segja út af þeirri hugmynd hvort rétt sé að láta sveitarfélögin ein um hafnarframkvæmdir eftirleiðis og fella niður ríkisstyrkinn og láta hann þess í stað renna til hafnamála að það hefur verið litið svo á að nauðsynlegt sé, vegna mismunandi aðstöðu í mismunandi sveitarfélögum til þess að byggja og halda við höfnum, að ríkið komi þar inn sem jöfnunaraðili.
    Á hinn bóginn hefur það verið þannig að fulltrúar þeirra hafna sem best standa og mest umferð er um og hafa mestar tekjur hafa sérstaklega upp á síðkastið talað um að það sé ástæðulaust að ríkið sé að veita fjármagn til hinna hafnanna sem veikast standa. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmilegt og nauðsynlegt að ljúka þeirri uppbyggingu og nauðsynlegu lagfæringum sem fram undan eru í höfnum víðs vegar um landið en það komi síðan til athugunar, hvað eigum við að segja, undir lok aldarinnar, eftir fjögur, sex eða átta ár hvernig standa eigi að þessum málum eftirleiðis. Á flestum stöðum er búið að marka útlínur hafnanna. Víða hafa byggðarlögin orðið fyrir verulegum tjónum vegna ofviðris, t.d. á sl. vetri og það er einfaldlega að minni hyggju óheppilegt að vera með mikil stökk í þessum efnum.