Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 15:33:53 (1407)

[15:33]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hitt atriðið sem ég hugði að hv. þm. væri kunnugt er að nú á allra síðustu árum og í náinni framtíð er mjög verið að styrkja samgöngukerfið á landi. Sums staðar hefur tekist að byggja upp samgöngur milli hafna eins og í Eyjafirði, enda hefur þar verið stofnað hafnasamlag, en á hinn bóginn er það svo sums staðar annars staðar, eins og fyrir austan svo ég taki Kambanesskriðurnar sem dæmi, sem torvelda það að hægt sé að tala um örugga flutninga allt árið.
    Einnig er það svo að okkur hefur enn ekki tekist að byggja upp hringveginn hringinn í kringum landið og okkur hefur heldur ekki tekist að byggja upp veginn t.d. milli sjávarplássanna á Snæfellsnesi þannig að það sem liggur fyrir nú, og tekst vonandi á þessum áratug en kannski fer eitthvað yfir á næstu öld, er að byggja upp samgöngukerfið þannig að það sé hægt að nýta hagkvæmustu lausnir þegar við horfum einungis á landakortið. En gallinn er bara sá núna að það er ekki nóg að horfa á landakortið þegar maður veltir fyrir sér flutningum á höfnum, heldur verða menn líka að vera kunnugir á landi og vita hvernig staðhættir eru þar og hvernig vegasambandið er.