Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 15:49:14 (1410)

[15:49]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það má segja að nú eins og á sl. ári snúast umræður mikið um sama atriðið. Það er ósköp einfalt að ef hinu sérstaka vörugjaldi er sleppt, þá erum við að tala um 15--20% lækkun á framlagi til hafnarmannvirkja og þá verða menn auðvitað að skera niður þær hlutfallstölur sem um er að ræða til einstakra hafna og fylgja þeirri ákvörðun eftir með þeim hætti því að peningar vaxa ekki á trjánum og það er samhengi á milli hafnaáætlunar og þessarar fjármögnunar eins og menn vita. Það er auðvitað rétt að þarna er um tilfærslu að ræða á milli hafna.
    Í öðru lagi liggur það ljóst fyrir að í 8. gr., þegar verið er að ræða um það að samkvæmt lögum þessum skuli heimilt að eigendur hafna séu sveitarfélög eða hlutafélög, þá er hér vitaskuld verið að reyna að greiða fyrir hagræðingu í hafnamálum. Það er verið að treysta grunn hafnanna og greiða fyrir því að

þær geti sinnt hlutverki sínu betur vegna þeirrar miklu samkeppni sem við erum í, ekki einungis hér innan lands heldur líka erlendis með því að það er eitthvert brýnasta hagsmunamál okkar Íslendinga nú að lækka flutningskostnað. Það liggur fyrir ef við tökum til dæmis flutningskostnað frá Íslandi til Evrópu borið saman við meiri vegalengdir eins og frá Bandaríkjunum þá verðum við að viðurkenna að kostnaðurinn héðan er ekki eins miklu lægri og við hefðum kosið miðað við þá fjarlægð sem um er að ræða.
    Hafnarsjóðir eru vitaskuld nú undanþegnir sköttum til sveitarfélaga og ríkissjóða og hér er gert ráð fyrir því að svo skuli áfram. Ég finn að þingmenn eru óöruggir um þessi atriði og ég hef af þeim sökum átt viðtal við formann nefndarinnar og við munum í sameiningu sjá til þess að fullnægjandi greinargerð berist þingnefnd þannig að ekki verði vafaatriði í sambandi við skattamálin.