Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 16:09:48 (1416)

[16:09]
     Pálmi Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna athugasemda hv. 3. þm. Vesturl. þá vil ég aðeins segja það að þátttaka hafnarsjóða getur auðvitað ekki orðið í fiskmörkuðum nema það sé ótvírætt að það sé talið í þágu hagsmuna hafnarinnar.
    Varðandi fyrirspurnir hv. þm. um Skemmtibátaklúbbinn hf. sem stofnaði til hafnargerðar og ræki höfn með hagnaði, þá er það fyrst að segja að það getur ekki orðið höfn samkvæmt hafnalögum nema að fá staðfesta reglugerð um höfn og hafnarsjóð. Við þekkjum slíka starfsemi um skemmtibáta þar sem ekki hefur verið staðfest hafnarreglugerð þannig að það er fyrsta skilyrðið.
    Að öðru leyti vil ég geyma mér að svara um hagnað af slíku. Ég tel að slíkt hlutafélag, Skemmtibátar hf., mundi væntanlega fá skattalega meðferð eins og önnur hlutafélög.