Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 16:32:51 (1425)

[16:32]
     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Enn á ný ætla ég að endurtaka: Ekkert nýtt hefur komið fram í svörum ríkisstjórnarinnar, ekkert nýtt. Við erum þráfaldlega búin að spyrja um það hvað eigi að gera með hafnir sem verða reknar í hlutafélagsformi. Við fáum engin svör við því. Við fáum ekki einu sinni svör frá þeim sem sömdu frv., þeir eru ekki búnir að skýra það út fyrir okkur hvaða skatta og skyldur hlutafélagsformshafnir eiga að greiða. Ekki hvort það verði frelsi í sambandi við gjaldtöku eða frelsi í sambandi við framkvæmdir. Við fáum ekkert að vita. Eina svarið sem ég fæ hér er það að ég sé í útgerðarmannsfrakka. Ég skammast mín ekkert fyrir það, ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég segi fyrir mig að mér finnst vera kominn tími til að einhver hugsi um grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, vegna þess að í auknum mæli eru sveitarfélögin að taka þau yfir. Hvers vegna? Kannski vegna þess að það eru of miklar álögur á þessum atvinnuvegum. Það kann að vera. (Gripið fram í.) Og það kann að vera að það sé mjög óeðlilegt að það sé hugsað um atvinnureksturinn yfirleitt. Ég hef oft fengið það framan í mig á hinu háa Alþingi að nú sé ég að hugsa um fiskvinnsluna, nú sé ég að hugsa um útgerðina, o.s.frv. Ég verð að segja, er eitthvað rangt við það? Ég spyr hv. þm., er eitthvað rangt við það? En ég hugsa líka um sveitarfélögin sem þurfa sífellt að taka þennan rekstur yfir. Það er spurning hvernig er hægt að koma þessu heim og saman, að þessum gjöldum sé stýrt í hóf og skynsamlega framkvæmt.