Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 16:40:24 (1428)

[16:40]
     Sturla Böðvarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. 16. þm. Reykv. þá vil ég segja það að við eigum auðvitað að horfa fram á við í sambandi við skipulag hafnamála, en ekki vera að líta til þess hvort að einstök mannvirki kunni að hafa verið reist á fölskum forsendum. Frv. gerir einmitt ráð fyrir því að reyna að hagræða og ná fram skynsamlegri skipan þessara mála en verið hefur. Það sem ég á við er að það er gert ráð fyrir þeim möguleika að stofna hafnasamlög þar sem eigendur hafna, e.t.v. margra hafna, sameinast um að reka tiltekið hafnarsvæði og nýta sem best þau mannvirki sem eru til staðar og ná þannig fram meiri hagkvæmni. Ég held að þetta sé e.t.v. mikilvægasta breytingin og mikilvægasta áherslan sem frv. gerir ráð fyrir og ég er sannfærður um að umræðan sem spannast um frv. og hugmyndir um stofnun hafnasamlaga hafa m.a. nú þegar leitt til þess að eigendur hafna hafa farið að huga að þessum málum. Við Eyjafjörðinn m.a. hafa sveitarfélögin gengið til samstarfs um samrekstur hafnanna. Þetta vildi ég að kæmi fram og vil að því leyti taka undir orð hv. þm., að það er afar mikilvægt að við reynum að hagræða og ná sem mestu út úr þeirri fjárfestingu sem við förum í varðandi þennan mikilvæga þátt, hafnirnar. Að öðru leyti er ég sammála hv. þm. að Reykjavíkurhöfn, og ég hef margundirstrikað það úr þessum ræðustóli, er vel rekið fyrirtæki og gefur mikinn arð af þeirri fjárfestingu sem þar er.