Endurskoðun slysabóta sjómanna

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 17:17:33 (1439)

[17:17]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þessa umræðu, einungis að taka undir þakkarorð félaga míns úr Alþfl., hv. þm. Gísla Einarssonar, til flm., þeirra hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar og Guðjóns Guðmundssonar, sem hér flytja mál sem ég tel af minni eigin reynslu vera afskaplega þarft. Þessi þáltill. gengur út á að skipuð sé nefnd til að endurskoða reglur um bótarétt íslenskra sjómanna vegna líkamstjóns. Nú er það svo, virðulegi forseti, að þegar vinnuslys verða vegna óhappatilvika eins og er allt of títt úti á sjó þá eru þau aðeins bætt að litlu leyti samkvæmt íslenskum réttarreglum. Því verða sjómenn mjög oft að bera sitt tjón að mestu leyti sjálfir. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að hér á árum áður þegar ég var enn svo lítt kominn á þroskabrautina að ég var ekki farinn að hneigjast til stjórnmálaafskipta þá eyddi ég nokkrum sumrum sem sjómaður á hafi úti, raunar frá öllum landsfjórðungum. Það vakti furðu hjá mér þó ég hefði einungis verið á sjó á þeim tíma árs er sjór var kyrrastur og þess vegna minnst hætta á slysum, hversu vinnuslys um borð úti á rúmsjó voru tíð. Ég þekki af eigin reynslu menn sem hafa hlotið verulegt tjón af slíkum slysum og ekki fengið nema örlitlar bætur og ég tel þess vegna mjög þarft að það sé sett nefnd til þess að kanna og endurskoða slysabætur sjómanna. Eins og hér hefur komið fram þá eru sjómenn einungis u.þ.b. 4--5% af vinnuafli landsmanna en fjórðungur vinnuslysa verður eigi að síður um borð í skipum. Það sýnir hversu hættulegt eðli þessa starfs er og miklu hættulegra en þau störf sem við landkrabbar vinnum. Þess vegna tel ég það mjög þarft að koma þessu máli í gegnum þingið sem fyrst og tek undir þá ósk hv. flm. Guðmundar Hallvarðsson að menn flýti för þess og láti það ekki daga uppi.