Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 17:20:19 (1440)

[17:20]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum öðrum en hvölum. Þetta frv. var fyrst lagt fram á 115. löggjafarþingi og þá urðu um það talsvert miklar umræður. Frv. varð hins vegar ekki útrætt á því þingi og þess vegna var það endurflutt nokkuð breytt á 116. löggjafarþinginu. Í ljósi þeirra athugasemda sem fram höfðu komið, bæði hér á þingi og raunar í umsögnum ýmissa aðila um það þótti ástæða til að gera nokkrar lagfæringar. Um þessar breytingar varð samkomulag í starfshópi sem yfirfór frv. fyrir þáv. umhvrh. áður en það var síðan lagt fram á 116. löggjafarþingi fyrr á þessu ári.
    Umræður í það skipti urðu hvorki jafnlangdregnar né líflegar eins og þegar það var lagt fram á 115. löggjafarþinginu enda lýstu þá flestir því yfir sem tóku til máls að það væri búið að færa afar mörg atriði til betri vegar sem áður höfðu valdið nokkrum ágreiningi. Jafnframt var það athyglivert þegar menn ræddu frv. á síðasta þingi að vel flestir þeirra sem tóku til máls töldu að það væri orðið mjög brýnt að setja nýja og samræmda löggjöf um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum og nauðsyn nýrrar og skýrrar lagasetningar sést e.t.v. best á því að með þessum lögum er í rauninni tekið yfir svið 10 eða 11 eldri laga sem frv. gerir ráð fyrir að verði felld úr gildi.
    Frv. var að umræðu lokinni á síðasta þingi vísað til hæstv. umhvn. en hún náði hins vegar ekki vegna anna að afgreiða það fyrir þinglok í vor og þess vegna er það endurflutt aftur en með nokkrum breytingum sem hafa verið gerðar á því frá því að frv. var lagt fram síðast á Alþingi.
    Helsta breytingin er að 14. gr. frv. sem fjallar um hreindýr hefur verið umskrifuð með tilliti til athugasemda sem hafa komið fram. Þá hefur jafnframt verið bætt við nýrri málsgrein við 4. gr. um skilaskyldu á fuglamerkjum en það ákvæði hafði vegna misskilnings fallið brott þegar frv. var samið. Þriðju meginbreytinguna er síðan að finna í 8. gr. en þar er kveðið sérstaklega á um rétt til dýraveiða þar sem landi í sameign hefur verið skipt en samsvarandi ákvæði er að finna í gildandi lögum um fuglaveiðar og fuglafriðun.
    Þegar forveri minn í embætti umhvrh. lagði þetta frv. fram á síðustu tveimur þingum flutti hann langar og afar ítarlegar framsöguræður. Þar greindi hann frá forsögu málsins og útskýrði einstakar greinar frv. Í ljósi þess og þeirrar miklu umræðu sem fram hefur farið um frv. nú þegar hér á hinu háa Alþingi, ætla ég að leyfa mér að fjalla aðeins um þau atriði í frv. sem ég tel mestu máli skipta en að öðru leyti vísa ég til fyrri umræðna um þetta mál sem afar margir hv. þm. tóku ríkan þátt í. --- Ég heyri, virðulegi forseti, að ýmsir þingmenn í salnum hugsa sér gott til glóðarinnar þó vera megi að sú skemmtan sem þeir höfðu áður fyrri af ýmsum þáttum þessa frv. verði ekki jafnmikil nú, enda hefur reynslan sýnt að þeir höfðu rangt fyrir sér í þeim efnum, samanber ísbjörn.
    Virðulegi forseti. Frv. sem ég er hér að mæla fyrir gerir ráð fyrir verulegum breytingum frá því sem verið hefur á skipan mála er varðar vernd og friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum. Meginbreytingin er fólgin í hinni almennu afstöðu til villtra dýra. Það má segja að fyrri lög hafi byggt á nokkru virðingarleysi gagnvart tilverurétti sumra þeirra og hafi miðað að eyðingu þeirra og útrýmingu ef lögin um hreindýr og seli eru undanskilin. Í þessu frv. er hins vegar sú grundvallarafstaða tekin að öll villt dýr, að músum, rottum og minkum undanskildum skuli njóta verndar. Í því frv. sem lagt var fram á 115. löggjafarþinginu voru hins vegar mýs, rottur og minkar ekki undanskilin en vegna athugasemda frá hv. þm. þá var ákveðið að breyta því. Í sjálfu sér hefur þessi breyting ekki áhrif á framkvæmd veiða á þessum dýrum, hér er frekar um að ræða þá almennu afstöðu sem tekin er til réttar dýranna. Mönnum er yfirleitt illa við rottur, mýs og minka, líta á þau dýr sem verulega skaðvalda og sætta sig þess vegna kannski ekki við það að ný löggjöf skyldi ekki heimila útrýmingu þeirra sjálfkrafa.
    Ég tel rétt, virðulegi forseti, að víkja að nokkrum atriðum í einstökum greinum frv. sem ég tel mestu varða fyrir málið. Eins og kemur fram í 2. gr. frv. þá er markmiðið með lögunum að skapa grundvöll fyrir því að maðurinn geti lifað í landinu í sátt við hið villta dýralíf. Þessu markmiði skal náð með því að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, komu skipulagi á veiðar og aðra nýtingu dýra sem og aðgerðir sem miða að því að koma í veg fyrir tjón sem dýr kunna að valda.
    Í 3. gr. frv. er staðfesting þess að það er umhvrh. sem hefur með umsjón allra mála að gera er varða villta fugla og villt spendýr, að hvölum undanskildum. Áður en ráðuneyti umhverfismála var stofnað var umsjón með þessum málum hins vegar í þremur ráðuneytum. Landbrn. fór með málefni er varða refi, minka og svartbak. Menntmrh. hafði á sinni könnu fugla og hreindýr en heilbrrn. sá um framkvæmd laga og reglna sem vörðuðu mýs og rottur. Með því að færa þessi mál öll til umhvrn. má ætla að meira samræmis gæti í afstöðu og ákvörðunum hins opinbera sem lúta að hinum ýmsu og ólíku tegundum.
    Ég tel rétt, virðulegi forseti, að ræða stuttlega málefni sela. Það má segja að þau hafi verið utan ráðuneyta þótt bæði landbrn. og sjútvrn. hafi talið málið sér skylt vegna hlunninda bænda og meints tjóns af völdum sela við laxveiðiár annars vegar og vegna hringorma í sjávarafla hins vegar. Það er ekkert launungarmál að menn hafa ekki verið á einu máli um það hvernig eigi að fara með þau mál sem varða selinn. Í gildandi lögum eru dreifð og sundurlaus ákvæði. Í Jónsbók eru ákvæði sem fjalla um seli og rostunga, sama er að segja um fræga tilskipun um veiði á Íslandi sem var sett 20. júní 1849. Þar er m.a. fortakslaust bann við veiðum í sellátrum sem er enn í fullu gildi þó það virðist hafa farið fram hjá mörgum. Það eru jafnframt til sérstök lög um selaskot á Breiðafirði og um útrýmingu sels í Húnaósi. Síðan má jafnframt nefna sérstakan kafla um ófriðun sels í lögum um lax- og silungsveiði.
    Nú er það svo að undanfarin 15 ár hafa veiðar á sel að verulegu leyti verið í umsjá sjútvrn. eða hringormanefndar sem sjútvrh. hefur skipað. Í frv. er gert ráð fyrir því að sjútvrh. stjórni nýtingu selastofna og hafi umsjón með þeim aðgerðum af opinberri hálfu sem er ætlað að hafa áhrif á stofnstærð og útbreiðslu sela og tjóna af þeirra völdum. Þetta ákvæði eins og það er fram sett í frv. er niðurstaða málamiðlunar sem var milli fyrrv. umhvrh. og sjútvrh. áður en frv. var lagt fram á 115. löggjafarþingi. Áður hafði verið gert ráð fyrir því að umhvrh. fari með öll málefni sem varða stjórn á selastofnum í samræmi við málsmeðferð er varðar önnur villt spendýr og villta fugla, þar á meðal sjófugla. Um það varð hins vegar ekki samkomulag og því er hér gert ráð fyrir sameiginlegu forræði sjávarútvegs- og umhverfisráðherra yfir selum og rostungum eins og fram kemur í 16. gr. frv.
    Í 3. gr. frv. er kveðið á um sérstaka nefnd sem hefur hlotið verulega athygli í umræðum á þinginu og ber heitið ,,villidýranefnd`` en eins og fram hefur komið þá er þar með engu móti vísað til þeirra manna sem þar kann að verða skipað á bekk síðar meir. Villidýranefndin á að vera umhvrh. til ráðgjafar

við framkvæmd laganna. Þessi nefnd kemur í stað fuglafriðunarnefndar sem er lögð niður skv. frv. en starfssvið villidýranefndar verður miklu víðtækara þar sem henni er gert bæði að fjalla um fugla og spendýr. Í frv. er skýrt tekið fram að það skuli ætíð leitað tillagna og umsagna ráðgjafarnefndarinnar við setingu reglugerða, leyfisveitinga og þegar teknar eru ákvarðanir um undanþágur og raunar við önnur stjórnvaldsfyrirmæli sem varða villt dýr.
    Í 6. gr. er sú grundvallarregla sett að öll villt spendýr, önnur en mýs, rottur og minkar, og allir villtir fuglar á Íslandi og innan íslenskrar efnahagslögsögu njóti verndar. Þetta á einnig við um þá fugla og spendýr sem hingað kunna að berast af sjálfsdáðun. Í frv. er skýr munur á hugtökunum vernd annars vegar og friðun hins vegar. Vernd felur ekki í sér bann við veiðum, heldur er átt við að veiðum dýra af tiltekinni tegund sé hagað á þann hátt að henni sé ekki stefnt í útrýmingarhættu. Friðun þýðir hins vegar bann við veiðum og öðrum aðgerðum sem geta aukið vanhöld eða dregið úr veiðum dýra af tiltekinni tegund. Ég nefni þetta hér vegna þess útbreidda misskilnings að vernd tiltekinna dýrategunda feli óhjákvæmilega í sér bann við öllum veiðum. Svo er ekki.
    Sú almenna heimild um að leyfa veiðar sem fram er sett í 7. gr. frv. er þess vegna í fullu samræmi við það grundvallarákvæði laganna að öll dýr skuli njóta verndar að þeim þremur tegundum undanskildum sem ég hef þegar nefnt.
    Samkvæmt 7. gr. frv. skal tvennt lagt til grundvallar því að heimilt sé að veiða villt dýr.
    1. Þess skuli ávallt gætt að viðkoma stofns vegi upp á móti veiðum þannig að tryggt sé að það sé engin hætta til staðar á útrýmingu tegundar.
    2. Þá skal vera gild ástæða fyrir veiðum, t.d. til nytja, til að koma í veg fyrir tjón, vegna ræktunar eða undaneldis og rannsókna. Heimildir til veiða eru síðan útfærðar nánar í VI. kafla frv.
    Þrátt fyrir þau grundvallarsjónarmið frv. um vernd villtra fugla og spendýra þykir eigi að síður ástæða til þess að heimila umhvrh. að taka ákvörðun um að stefnt skuli að útrýmingu tegundar sem flust hefur til landsins af manna völdum enda telji ráðgjafarnefndin það bæði æskilegt og gerlegt. Sú staða getur vel komið upp að það þyki rétt að útrýma tegund eða stofni dýra á Íslandi sem ekki telst til hins upphaflega íslenska dýraríkis vegna tjóns sem dýrin kunna að valda á náttúru landsins eða heilsu manna eða dýra. Minkurinn ætti að nægja hér sem dæmi til útskýringar.
    Það er jafnframt nauðsynlegt, virðulegi forseti, að undirstrika að með frv. er ekki lögð til nein breyting á reglum um aðgang almennings að veiðilendum eða neinu er varðar veiðirétt landeigenda. Eignarréttarmál í almenningum og afréttum taka til mun fleiri þátta en nytjaréttar á dýrum. Á þeim málum þarf hins vegar að taka í heild og er raunar brýnt að það verði gert. 8. gr. frv., sem fjallar um þessi mál, er efnislega samhljóða sambærilegum ákvæðum gildandi laga og sú leið var valin til þess að nytjaréttarþátturinn yrði ekki til þess að tefja framgang frv. Eina efnislega breytingin er fólgin í því að heimild til veiða í almenningum á afréttum utan landareigna lögbýla og íslenskri landhelgi utan netlaga og landareigna er víkkuð. Hún er ekki lengur bundin við íslenskan ríkisborgararétt heldur við það að viðkomandi eigi lögheimili hér á landi. Ég tel hins vegar sjálfur, virðulegi forseti, ástæðu til þess að kanna hvort ekki sé rétt að auka rétt almennings til veiða með því að heimila öllum veiðar á ríkisjörðum sem eru í eyði eða þar sem veiðar stangast ekki á við önnur not af viðkomandi jörðum. Ég tel að það sé hægt að heimila slíkar veiðar án lagabreytinga og ég vil að það komi hér fram að ég hef kalsað þann möguleika við landbrn.
    Samkvæmt 8. gr. frv. verður umhvrh. líka heimilt að setja reglur um veiðar erlendra ferðamanna. Það hefur færst í vöxt á undanförnum árum að útlendingar komi til landsins í því skyni að stunda hér skotveiðar og raunar er það svo að á nokkrum stöðum á landinu mun útlendingum hafa verið leigður veiðiréttur. Það er því tæplega annað verjandi tel ég heldur en að setja skýrar reglur um þessi mál.
    Í 9. gr. frv. eru taldar upp ýmsar veiðiaðferðir sem óheimilt verður að beita og talsverð umræða spannst raunar einnig um þá grein þegar þetta frv. var áður fyrir hinu háa Alþingi. Þessi upptalning byggir hins vegar að mestu á ákvæðum alþjóðasamnings um fuglavernd sem er kenndur við París og Íslendingar hafa verið aðilar að allar götur síðan 1956. Upptalningin tekur einnig mið af samningi Evrópuráðsins um vernd villtra plantna og dýra og lífssvæði þeirra, hinum svokallaða Bernarsáttmála sem tók gildi hvað okkur Íslendinga áhrærir þann 1. október sl.
    Í fyrri umræðum um þetta frv. á Alþingi hefur mest verið rætt um þessa grein og raunar þá elleftu líka sem fjallar um veiðikort. Í umræðunum hefur komið fram að ýmsir bæði innan þings og einnig utan hafa haldið því fram að bann við notkun hálfsjálfvirkra eða sjálfvirkra skotvopna og svokallaðra pumpa með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki, en það bann er sett fram í 14. tölul. 9. gr., sé nýtt og feli í sér stórfellda eignaupptöku. Þess vegna vil ég ítreka að ákvæði 14. tölul. er í fullu samræmi við gildandi reglur um skotvopn og skotfæri, nr. 16/1978, með breytingum frá árunum 1979 og 1988.
    Í 4. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um leyfi fyrir margskotabyssur segir að leyfi fyrir skotvopnum samkvæmt þessari grein megi aðeins veita þeim sem sýnir fram á að hann hafi þörf fyrir að eiga þau og sýni jafnframt fram á sérstaka hæfni í meðferð skotvopna. Enn fremur segir, með leyfi forseta: ,,Að jafnaði skal ekki veita leyfi fyrir haglabyssum er taka fleiri en tvö skothylki.`` Það er því alveg ljóst að það er ekki gert ráð fyrir því í dag að veitt sé leyfi fyrir margskotabyssum nema sérstök þörf sé fyrir það og vart geta skotveiðar talist til slíkra sérstakra þarfa. Um þetta vísa ég reyndar til ummæla reyndra veiðimanna eins og hv. þm. og formanns Framsfl., Steingríms Hermannssonar, sem tók einmitt þetta fram hér

við fyrri umræður og ég geri ráð fyrir því að fulltrúar hans hér í salnum muni ítreka það viðhorf í umræðunum á eftir.
    Í 3. mgr. 3. gr. þeirrar reglugerðar sem ég hef vísað í segir að lögreglustjóri hafi heimild til að veita leyfi fyrir hálfsjálfvirkum byssum sem fluttar voru til landsins fyrir gildistöku laga um skotvopn, sprengiefni og skotelda frá 1977 að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Einhverjar af þessum byssum eru í dag skráðar 4--5 skota og í frv. er ekki lagt til bann við því að menn eigi þessar byssur ef menn vilja nota þær til veiða á villtum fuglum eða villtum spendýrum, þá þarf einungis að gera á þeim minni háttar breytingar sem felast í því að setja í þetta ódýran plasttappa. Þessir plasttappar breyta í engu eiginleikum byssunnar að öðru leyti en því að það komast ekki nema tvö skot í skothylkjahólfið.
    Í frv. er þess vegna alls ekki verið að leggja til breytingu á reglum um skotvopn og því síður er hægt að halda því fram að hér sé um að ræða eignaupptöku eins og áður hefur verið gefið í skyn í fjölmiðlum, en líka hér á Alþingi. Reglurnar eru skýrar í dag. Veiðimaður á ekki að geta fengið leyfi fyrir haglabyssum sem taka þrjú eða fleiri skot í magasín eða eru hálfsjálfvirkar. Hitt er svo annað mál hvernig gildandi ákvæðum um skotvopn hefur verið framfylgt af yfirvöldum. Það er vitað að einhver leyfi hafa þrátt fyrir allt verið veitt fyrir 5 skota byssum á undanförnum árum, einkum utan höfuðborgarsvæðisins og það er líka vitað að það eru til menn í hópi veiðimanna sem brjóta af sér með því að taka svokallaða stoppara úr byssunum í þeim tilgangi að koma í þær fleiri en tveimur skotum. Það er því ljóst að það væri æskilegt að herða eftirlit með þessu og vonandi verður sú umræða sem hefur sprottið í kjölfar þess að menn hafa tekið frv. þetta til umræðu nú og á fyrri þingum til þess að reglunum verði betur framfylgt en áður.
    Eins og ég nefndi hér áðan, þá hefur umræðan einnig orðið mikil um ákvæði 11. gr. frv. sem fjallar um veiðikort og hæfnispróf veiðimanna. Þar eru sett ákvæði sem miða einkum að því að afla upplýsinga á skipulegan hátt um veiði úr einstökum stofnum og breytingar á veiði á milli ára þannig að hægt sé að meta ástand stofnanna hverju sinni og áhrif veiða á þá. Hér er um að ræða nýmæli, a.m.k. hvað varðar fugla og spendýr. Hins vegar er það svo að sambærileg ákvæði hafa um langt skeið verið í gildi um aðrar veiðar. Það þarf vart að minna hv. þm., sem vel sjóaðir eru í öllu því sem lýtur að annars konar veiðum, á lög og reglur um fiskveiðar í sjó eða lög um lax- og silungsveiði en þar er skýrt tekið fram að hver sá sem veiði stundar skuli gefa skýrslu um veiðina enda þykir það sjálfsagt og ekkert tiltökumál að lax- og silungsveiðimenn skrái allan sinn afla. Það þekkjum við veiðimenn þessa þings. Þörfin fyrir þessa skráningu er hins vegar orðin brýn þegar rjúpnaveiðitímanum er að ljúka í ár mánuði fyrr en undanfarin ár. Þá er umræðan um rjúpuna mönnum í fersku minni og það er þess vegna rétt að taka hana sem dæmi um þessa nauðsyn.
    Rjúpan hefur um áratuga skeið verið tilefni deilna um áhrif veiða á stofnstærð, m.a. hér í sölum Alþingis. Menn deila einnig um ástand stofnsins, hvort stofninn sé stór, hvort hann sé lítill, án þess að hafa um það áreiðanleg gögn. Veiðar á rjúpu eru mikið stundaðar og það er talið að um 4--5 þúsund manns gangi árlega til rjúpna. Þetta eru hins vegar einungis getgátur. Það er skortur á áreiðanlegum upplýsingum um nákvæmar tölur um árlega veiði og fjölda veiðimanna, þó menn hafi ákveðnar vísbendingar. Ákvæði 11. gr. miða því að því að bæta eftirlit með veiðum og ástandi þeirra dýrastofna sem er veitt úr. Ef frv. verður að lögum þá skapast þannig möguleikar til að meta reglubundið ástand stofnategundar á borð við rjúpuna og möguleg áhrif veiða á stofninn.
    Ákvæði greinarinnar eru sniðin að erlendum fyrirmyndum. Það er nú svo að víða í nágrannalöndum okkar er lögbundið að þeir sem stunda veiðar á villtum fuglum og spendýrum skuli árlega afla sér veiðikorts sem þeir fá ekki endurnýjað nema þeir hafi skilað skýrslu um veiðar síðasta árs og greitt gjald í veiðisjóð. Í þessu sambandi má minna á hvernig grannar okkar, Grænlendingar, koma að þessu máli. Grænlenska landsstjórnin er núna að koma kerfi eins og þessu á. Þar er gert ráð fyrir því að allir veiðimenn í Grænlandi þurfi að afla sér veiðileyfa til eins árs í senn í lok veiðiárs og skila skýrslu um sína veiði. Og það er mat ráðamanna í Grænlandi að að öðrum kosti sé ógerlegt að fylgjast með veiðum á þeim 47 tegundum spendýra og fugla sem menn stunda veiðar á þar í landi. Ég hygg að það sé engum blöðum um það að fletta að Íslendingar eru eftirbátar annarra þjóða hvað varðar eftirlit með stofnum fugla og spendýra sem veiðar eru stundaðar á og það er fyrir löngu orðið tímabært að bæta þar úr.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að fjalla meira um efni þessarar greinar sem hefur orðið tilefni nokkurra deilna á hinu háa Alþingi en vísa til fyrri umræðna. Það er þó rétt að nefna að það er verið að leggja drög að þeim reglum sem á að setja samkvæmt frv. Ráðherraskipuð nefnd annast þessa vinnu og hún hefur nú þegar mótað reglur um veiðikort, veiðiskýrslur og hæfnispróf veiðimanna og ég tel sjálfsagt að veita þeirri þingnefnd sem fær þetta frv. til meðferðar aðgang að þessum tillögum ef það mætti verða til þess að varpa skýrara ljósi á framkvæmdina.
    Í 14. gr. frv. eru ákvæði um hreindýr. Þau hafa nokkra sérstöðu í lífríki landsins vegna þess að þau tilheyra ekki hinni upphaflegu fánu. Þau voru flutt hingað sem gjöf til Íslendinga á sínum tíma. Það gilda sérstakar reglur og þurfa að gilda um veiðar og rannsóknir á hreindýrum og eins um arðinn af veiðunum. Reglur um það efni hafa verið settar sem gott samkomulag varð um og ekki er fyrirhuguð nein breyting á því skipulagi sem þar er fram sett. Það er hins vegar rétt að minna á að það hafa verið gerðar athugasemdir varðandi heimildir fyrir nokkrum ákvæðum reglnanna og til að taka af allan vafa þar að lútandi þá hefur 14. gr. verið umskrifuð frá fyrra frv. með tilliti til þessara athugasemda.

    Í dag er jafnframt engin heildarlöggjöf í gildi varðandi seli og rostunga eða veiðar á þeim við Ísland. Samkvæmt frv. eru rostungar alfriðaðir en ráðherra getur samkvæmt tillögum sjútvrh. sett reglugerð sem heimilar skotveiðar á fjórum tegundum sela. Það er ætlast til að í reglugerðinni verði tilgreind þau svæði og árstímar þegar veiði er heimiluð á hverri tegund fyrir sig og að teknu tilliti til hefða og staða þar sem selur getur valdið tjóni í og við laxveiðiár.
    Í frv. er einnig fjallað um hið fræga dýr, ísbjörninn, í 17. gr. Eins og sakir standa, þá eru hér í gildi lagaákvæði um veiðar á ísbjörnum sem voru sett um miðja síðustu öld. Það er ljóst og ekki síst með hliðsjón af frægum ísbjarnarveiðum fyrir norðan nú í sumar að það er nauðsynlegt að setja skýrar reglur um vernd og veiðar þessara dýra. Tegundin hefur verið í útrýmingarhættu. Henni stafar enn frekari hætta á síðustu árum af völdum vaxandi mengunar í norðurhjaranum sem má segja að geti haft veruleg áhrif á æxlunargetu þessara dýra. Af þeim sökum eru þau einnig í hættu stödd og það er þess vegna nauðsynlegt að grípa til aukinnar lagaverndar til þess að treysta þær stoðir sem tilvist þessarar tegundar hvílir á hér á norðurslóðum.
    Nú er það svo að eftirlit með ísbjörnum í þeim löndum þar sem þeir eiga heimkynni er afar strangt og Norðmenn, Danir fyrir hönd Grænlendinga, Kanadamenn, Bandaríkjamenn og Sovétmenn gerðu með sér samkomulag um vernd ísbjarna árið 1973. Ísbirnir slæðast stundum hingað til lands með hafís sem eru þeirra náttúrulegu heimkynni og það þykir rétt að styrkja viðleitni fyrrgreindra þjóða með því að banna veiðar á ísbjörnum á hafís eða á sundi, en gangi ísbirnir hins vegar á land, þá gegnir öðru máli og er eðlilegt að þá sé heimilt að fella þá, en áherslan er þó lögð á það í frv. að til veiðanna séu notuð heppileg vopn eftir því sem hægt er.
    Í 18. gr. frv. eru tilgreindar þær fuglategundir sem má aflétta friðun á og raunar er þar settur rammi um þann tíma árs sem umhvrh. er heimilt að aflétta friðun. Og þessar reglur eru að mestu leyti sniðnar eftir gildandi lögum um veiðitíma fugla.
    19. gr., virðulegi forseti, er afar mikilvæg, enda fjallar hún um nýtingu hlunninda, en þau hafa frá alda öðli verið afskaplega mikilvægur þáttur í lífsafkomu þessarar þjóðar og raunar skipt sköpum fyrir sum byggðarlög á öldum áður. Flest þessara hlunninda skipta að vísu litlu máli fyrir afkomu manna nú á tímum, en þrátt fyrir það er ekki nein ástæða og engin gild rök til þess að skerða að einhverju leyti rétt veiðiréttarhafa til hlunnindanýtingar, enda er ekkert sem bendir til þess að hefðbundin nýting hafi stefnt umræddum stofnum í hættu. Í greininni er því gert ráð fyrir óbundnum heimildum til hefðbundinnar nýtingar ýmissa fuglategunda sem og til hefðbundinnar veiði landsels og útselskópa en eigandi veiðiréttar skal afla staðfestingar viðkomandi sveitarstjórnar og sýslumanns á rétti sínum.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að orðlengja frekar um frv. en legg til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhvn.