Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 17:48:54 (1444)

[17:48]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er fram komið um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er flutt eins og ráðherra hefur fram tekið í framsögu sinni í þriðja sinn, hlaut allmikla umræðu fyrst þegar það var fram lagt. Ég hef ekki þreytt þingið með því að ræða þetta mál mikið og ætla ekki að gera það heldur að þessu sinni. Mér þótti sem ýmislegt af því sem rætt var á fyrri þingum um málið hafi ekki beinlínis verið efnislegt, ekki allt saman verið efnislegt en ráðherra hefur þó sagt að tekið hafi verið tillit til ýmissa fram kominna athugasemda og það hygg ég að sé rétt. En þetta mál hefur í rauninni enn ekki fengið verulega umfjöllun af hálfu þingsins vegna þess að þingnefndir sem hafa fengið það til umfjöllunar, þ.e. umhvn. Alþingis, hafði ekki tíma til þess, a.m.k. ekki á síðasta þingi til að leggja í málið teljandi vinnu vegna annarra mála sem umhvrh. þá lagði áherslu á að fá lögfest. Það bíður því mikið verk þeirrar þingnefndar sem fær þetta mál og ég efa það ekki að það sé hugur manna að reyna að fást við það til lögfestingar og afgreiðslu, a.m.k. ætla ég ekki að standa að þessu máli út frá öðrum forsendum í þingnefnd þar sem ég á sæti því hér er að mörgu leyti um merka löggjöf að ræða sem þörf er á að nái fram að ganga þó að margt þurfi athugunar við í þessu frv. og það fer auðvitað eftir því hvernig sækist með þá athugun á vegum þingnefndar hvort það tekst að afgreiða þetta mál og lögfesta.
    Ég tel að sá vandi sem býr að baki þessu frv. frá því sem áður var lögfest hér á landi sé góðra gjalda verður, aukinn skilningur á samhengi í náttúrunnar ríki milli dýrategunda, þótt enn gæti þess að menn setji á ræður sem byggja á fordómum varðandi afstöðu til dýra. Þeir verða kannski seint upprættir.
    Ég er þeirrar skoðunar í raun að það þurfi að taka enn frekar á því í löggjöf okkar að færa umsjón með dýrum, lífrænum auðlindum lands og sjávar, undir ráðuneyti umhverfismála. Það eigi að draga þau mörk að ráðuneyti hinna einstöku atvinnusviða annist framkvæmd nýtingar á dýrum og gróðri, lífrænum auðlindum, út frá þeim forsendum sem ráðuneyti umhverfismála leggur. Það sjónarmið á vonandi eftir að vinna sér sess því ég tel að það sé hið eina rökrétta í sambandi við stjórnsýsluna í landinu og ef eftir því væri farið, virðulegur forseti, þá t.d. mundum við færa til umhvrn. mat á stöðu lífrænna auðlinda hafsins, fiskstofnana þar á meðal, ákvörðun um nýtingarmörk hverju sinni sem síðan ráðuneyti sjávarútvegsmála taki við og stjórni veiðum og nýtingu innan þeirra marka sem sett eru út frá bestu þekkingu og mati sem ráðuneyti umhverfismála á að fást við, stutt af þeirri fyllstu upplýsingaöflun sem hægt er að fá hverju sinni og þar þurfa menn sannarlega að taka betur á, bæði varðandi landið og sjóinn.
    Því er ég að nefna þetta hér, virðulegur forseti, að það tengist því skrefi sem hér er tekið til nýrrar sýnar í sambandi við þessi efni. Í sambandi við gróðurríkið ætti með sama hætti ákvörðun varðandi nýtingu á gróðurlendi landsins, mat á því og meginrammi, að vera dreginn af umhvrn., en hins vegar að ráðuneyti landbúnaðarmála stýrði búskapnum, nýtingunni, innan þeirra marka sem hófleg eru talin af því ráðuneyti sem falin er umsjón með auðlindinni, með hinni lífrænu auðlind, náttúrulegu auðlind. Þessi sjónarmið mega til með að fara að komast inn í gegnum löggjöf okkar því þau eru að mínu mati studd það gildum rökum að það má ekki dragast mjög lengi að menn taki á þessu verkefni. Hvort núv. hæstv. umhvrh. endist til þess tími í ráðuneyti, hann virðist stundum mæla þann tíma í dögum frekar en árum þegar hann ræðir um sinn sess, skal ósagt látið en ég vona að hann leiði hugann að þessu í sínum störfum og þoki kannski áfram athugun á málum frekar en gert er í þessu frv. sem tekur þó á ýmsum gildum þáttum út frá betri sýn til þessara mála og auknum skilningi frá því sem lengi hefur verið.
    Þó eimir hér eftir af gömlum fordómum og mjög skrýtnum þáttum. Mér fannst satt að segja heldur lágt risið á hæstv. umhvrh. sem var þó að mæla frýjunarorð til þingmanna, allt upp í formenn flokka og rifja upp gamlar umræður. Mér fannst leggjast heldur lítið fyrir ráðherrann þegar hann fór að fjalla um selinn og eitthvert málamiðlunarsamkomulag sem gert hefði verið við fyrrv. sjútvrh. af fyrrv. umhvrh. Og hæstv. umhvrh., Össur Skarphéðinsson, flytur þetta gamla samkomulag reist á gömlum grunni og fordómum, úreltri sýn til mála og ætlar okkur að fara að lögfesta það. Að deila hér löndum með sjútvrn. með þeim hætti sem dregið er fram í þessari grein og síðan kemur bóndinn úr Norðurl. v. og heimtar að þetta fái að blíva í ráðuneyti landbúnaðarmála, yfirráðin yfir selnum. Hér eru leifar þessa gamla skilnings á meðferð mála og ég vonast til þess að hæstv. ráðherra finni ekki mjög mikið að því þó að einhverjir í umhvn. þingsins reyni að færa þetta til skynsamlegri átta að því er varðar seli og annað viðlíka sem kann að leynast í þessu frv. af þessari úreltu sýn til mála.
    Ég bið menn að skilja ekki mál mitt þannig að ég telji að með því að færa mál saman sem saman eiga í stjórnsýslunni þá eigum við með því endilega að vera að breyta reglum og hefðum sem skapast hafa varðandi nýtingu viðkomandi lífrænnar auðlindar, viðkomandi tegundar. Það er alls ekki þar með sagt. Það er langt frá því. Margt af því er góðum rökum stutt og hefur gefist vel. Hins vegar er vandinn sem við er að fást í þessum efnum af nýjum toga þegar um er að ræða veiðar á villtum dýrastofnum, hann er tæknin og aðferðirnar sem menn beita. Þar þurfa menn auðvitað að vera á verði, þar verður verndarsjónarmiðið að vera mjög ofarlega.

    Nú veit ég það að ýmsir ágætir veiðimenn, skotveiðimenn, vilja láta ákveðnar leikreglur gilda og leggja sig fram um það og allt er það mjög góðra gjalda vert. En þess gætir auðvitað að það eru margir sem vilja ganga lengra og hafa þau gildi ekki í heiðri og þar ber auðvitað hinum opinbera löggjafa og sérstaklega framkvæmdarvaldi á grundvelli laga að setja ákveðnar skorður. Ég vek t.d. athygli á ákvæðum 9. gr. frv., 17. töluliðar, um vélknúin farartæki í sambandi við veiðar. Hvernig heldur hæstv. umhvrh. og hv. þm. að á þeim málum sé haldið? Halda menn að það sé almennt virt að nýta ekki vélknúin tæki í sambandi við veiðar? Hér er því haldið inni í frv. að vélknúin farartæki á landi megi nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegarslóðum. Gott og vel. Hvernig ætli framkvæmdin sé?
    Veiðar sem hlunnindi geta átt fullan rétt á sér, ég er ekki sérfræðingur í einstökum dýrastofnum, hef ekki talið mig það og ýmsir eru þar sem hafa lagt sig þar meira eftir t.d. í sambandi við rjúpuna, en það koma óneitanlega upp spurningarmerki. Á sama tíma og hæstv. umhvrh. að mínu mati með réttu er að stytta rjúpnaveiðitímann vegna þeirrar óvissu sem er um stöðu stofnsins þá les maður í blöðum um það að menn gangi þannig fram sem eins konar hlunnindabúskap að hirða 800 rjúpur á jörð sinni og segja að þetta sé ekkert mál.
    Þarna er tæknin á ferðinni og tækniframfarir geri ég ráð fyrir þegar svo vel gengur veiðiskapurinn. Það er á þessu sviði sem þarf að gæta sín mjög verulega og reyna bæði með upplýsingum og fræðslu en einnig með eftirliti að tryggja það að sæmilega sé gengið um að þessu leyti og menn ofbjóði ekki lífríkinu með veiðum.
    Í þessu sambandi, virðulegur forseti, vildi ég nefna það að ég tel að það kerfi sem hér er verið að innleiða með veiðikortum og skil á upplýsingum sé góðra gjalda vert sem tilraun. Sjálfsagt þarf að endurmeta það að fenginni reynslu og sjálfsagt að skoða það mál einnig nú við lögfestingu en ég held að það sé verið að fara inn á braut sem geti orðið til bóta. Hins vegar þegar ég les viðauka við frv. sem er umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjmrn., sem er viðlag sem á að fylgja stjfrv., þá sjáum við að það er ekki verið að auka fjármagn af opinberri hálfu til þessara mála. Það er beinlínis gert ráð fyrir því í lok 19. blaðsíðu að skuldbindingar ríkissjóðs vegna þessa málaflokks lækki um rúmlega 10 millj. kr. miðað við þá löggjöf sem gilti á árinu 1991. Ég tel það út af fyrir sig góðra gjalda vert að hægt sé að draga úr kostnaði við útrýmingu refa og minka ef það er unnt, alveg sérstaklega varðandi refinn þar sem gengið hefur verið mjög óskynsamlega fram á liðinni tíð að ég hygg miðað við í rauninni þann raunverulega skaða sem af refnum stafar fyrir sauðfé í landinu. En þarna er sem sagt gert ráð fyrir minni kostnaðarþátttöku ríkissjóðs og þarna er gert ráð fyrir væntanlega að ekki verði gengið fram varðandi refaveiðar af því kappi sem verið hefur nema gildar ástæður séu fyrir því. En þá hefði ég viljað sjá, og þá kemur að hlut ráðherrans, að ráðherrann fengi þá fjármuni sem þarna er um að ræða til nauðsynlegra útgjalda vegna rannsókna og eftirlits á þeirri löggjöf sem hér er verið að setja sem í rauninni er ekki gert ráð fyrir neinu að gagni í og ég bið hæstv. ráðherra að staldra við í sambandi við þetta efni. Það er beinlínis sagt í skýringum við þetta frv. að það skorti verulega á upplýsingar, rannsóknir og annað, en hér er verið að lögfesta mál og það er verið að spara á ákveðnu sviði sem er góðra gjalda vert með rökum en þá á að tryggja það að reyna að halda eftir því sem er algjörlega nauðsynlegt til þess að bæta úr þekkingarskorti og upplýsingavöntun á þessum sviðum.
    Virðulegur forseti. Ég kem þá aðeins að því sem er nokkurt einkenni í þessu frv. sem ég staldra við og það er sá þáttur sem snýr að reglugerðum. Það er rakið í grg. og við sjáum það við lestur frv. að víða er gert ráð fyrir reglugerðum um stór svið sem málinu tengjast. Auðvitað getur það átt fullan rétt á sér að hafa svigrúm til reglugerðarheimilda en þegar það er gert með þeim hætti að leiðsögnin er afskaplega takmörkuð og heimildin í rauninni bara óútfyllt ávísun til ráðherrans í mörgum tilvikum, þá staldrar maður við. Spurningin er: Eru menn vissir um að þarna sé farið meðalhófið að þessu leyti? Það held ég að við verðum að athuga í þingnefnd varðandi einstök efni. Það kann að vera að það gildi misjafnt um einstaka þætti að því er varðar fyrirhugaða reglugerðarsetningu og ég vil ekki dæma það, en farið, góðir, virðulegir þingmenn, yfir 7. gr. frv. sem eingöngu er grein um víðtækar reglugerðarheimildir og það er víðar að finna í þessu.
    Þá kemur líka spurningin hvor það á að gera kröfu til þess að drög að reglugerð liggi fyrir áður en málið er lögfest, þá er nú allnokkuð verk sem bíður ráðherrans og starfsmanna hans nema þeir hafi verið svo forsjálir að vera komnir með drögin nú þegar.
    Í 8. gr. er verið að breyta gildandi reglum varðandi heimildir til veiða í almenningum, á afréttum og utan landareigna lögbýla, það er verið að færa þann rétt frá íslenskum ríkisborgararétti yfir í það að gilda fyrir menn með lögheimili hér á landi. Þarna er auðvitað um verulega breytingu að ræða. Fyrrv. umhvrh. reyndi að knýja þá breytingu fram með sérstakri löggjöf með frv. á síðasta þingi. Við það frv. komu fram fjölmargar athugasemdir og ég skilaði sérstöku áliti varðandi það mál sem tengdist samninginn um Evrópskt efnahagssvæði og þeirri breytingu á búseturétti í landinu sem orðinn er og gjörbreytir stöðunni. Menn telja sig víst vera nauðbeygðir til þess að skrifa upp á þessa breytingu og þessi breyting kann að tengjast því og tengist því auðvitað með vissu. Hitt kann svo að vera sjónarmið hvort menn telja að það sé eðlilegt að gera breytinguna eða ekki en yfir það tel ég nauðsynlegt að farið verði. Ég vek athygli á að á Norðurlöndunum eru miklar umræður uppi í tengslum við almenninga þar í löndum, t.d. í Svíþjóð, að

því er varðar umgengni, veiðirétt og margt fleira. Ég tel að þingmenn þurfi að fara vandlega yfir þau efni í tengslum við þær heimildir sem hér eru dregnar af hálfu hæstv. ráðherra.
    Aðeins þetta með 16. gr., sem ég ætla ekki að ræða mikið frekar, varðandi seli og rostunga. Ég vil minna á það að á síðasta áratug fóru fram gagnmerkar umræður í þinginu um frv. sem þáv. hæstv. sjútvrh. reyndi að knýja fram á þingi af allmiklu offorsi að mínu mati og átti ég nokkurn hlut í því að hægja á málinu þó það yrði endanlega síðan bannsett eða dagaði upp í efri deild þingsins í önnum fyrir þinglok þegar það var öðru eða þriðja sinni til meðferðar en þá höfðu menn reyndar unnið þau afrek af hálfu ráðuneytis að friða eða afnema friðun á rangri selategund og málið var í rauninni ónýtt af þeim sökum. Það voru ákvæði úr veiðitilskipun frá 1849. Þeir tóku bara rangan pól, þeir völdu ranga skepnu, ranga tegund og voru búnir að hafa mikið fyrir því að reyna að lögfesta þetta mál á mjög sérkennilegum forsendum sem betur fer ganga ekki aftur hér en þetta mál þarf sérstakrar athugunar við.
    Síðan vil ég aðeins segja það að ég hef reynt að ræða þetta mál á efnislegum forsendum, virðulegi forseti. Mér þótti sem hæstv. ráðherra gerði talsvert til að vekja upp umræðu af því tagi sem varð fyrir tveimur árum síðan þegar málið var lagt fram. Ég er satt að segja alveg hissa á því að ráðherra þessara mála skuli leggja sig fram um það eins og að egna menn til umræðu á svipuðum nótum og fram fóru fyrir tveimur árum. Ég tel að Alþingi hafi ekki vaxið af þeirri umræðu og ég tel að ráðherrann eigi að leggja sig frekar fram um það að ýta undir efnislegar umræður um þau mál sem hann leggur fram, ágæt mál, heldur en að kynda undir með mikilli fyrirhöfn eins og hann hafði í ræðu sinni að reyna að koma mönnum til í sambandi við deilur um málið á þeim nótum sem betur eru geymdar þó ekki séu gleymdar.