Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 18:19:10 (1449)

[18:19]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það var nokkur blástur í hæstv. ráðherra. ( Umhvrh.: Það er . . .  ) Það er ágætt að hann blási öðru hvoru, það fer ekki illa á því í tengslum við þetta mál. En þar sem hann vék efnislega að í sambandi við vélknúin tæki og veiðar þá lýsti ég ekki afstöðu til þess sem í frv. kemur fram heldur almennum áhyggjum af því að þau ákvæði ( Umhvrh.: Ég spurði eftir . . .  ) sem einnig er verið að reyna að setja og lögfesta hér séu brotin og það skortir mjög á að eftirlit sé með þessum málum sem þyrfti. Auðvitað kostar það fjármuni.
    Það sem ég er að víkja að í sambandi við fjármunina hélt ég að hæstv. ráðherra þyrfti ekki að taka upp með þeim hætti að ætla að fara að kenna mér lestur á þinggögnum. Ég get alveg sýnt honum það að ég hef farið yfir bls. 19 þar sem þetta er skráð og hef gert mér alveg grein fyrir því hvernig þessum málum er háttað. En það er greinilega eitthvað viðkvæmt hjá hæstv. umhvrh. að það sé rætt um stöðuna varðandi fjárveitingar til þessa málaflokks því það raunalega liggur fyrir að þar hefur hæstv. umhvrh. ekki haft erindi sem erfiði. Það liggur fyrir sú raunalega staðreynd nú eftir fleiri ár sem umhvrn. hefur starfað að það hefur í rauninni ekki fengið í sinn hlut neitt verulegt fjármagn til þeirra mála sem það á að sjá um. Ég tala nú ekki um miðað við lágmarksþarfir. Ósamræmið á milli orða og athafna af hálfu hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum er með þeim hætti að hæstv. umhvrh. ætti (Forseti hringir.) að hafa vit á því að segja sem fæst þegar fjármál til þessara mála ber á góma. Hann ætti að líta til kratanna á Norðurlöndum, hann ætti að líta til kratanna í Noregi og sjá hvernig spyrnt var í af þeirra hálfu þegar stofnað var nýtt ráðuneyti (Forseti hringir.) umhverfismála og fjárveitingar til umhverfismála auknar um og upp í 60% fyrir þremur árum síðan samkvæmt stefnu sem verið var að reyna að móta. (Forseti hringir.) En hér situr ríkisstjórn, gefur út skýrslu og stefnumótun samda af einhverri nefnd en fjárveitingarnar láta á sér standa.