Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 18:38:38 (1454)

[18:38]
     Ingi Björn Albertsson :
    Hæstv. forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka hér til máls, taldi mig hafa sagt nóg um þetta mál þegar það var fyrst flutt hér á hinu hv. Alþingi. En það er ekki annað hægt en segja örfá orð, en geyma sér kannski heildarmálflutning ef svo skyldi fara að málið kæmist nú loksins út úr hv. umhvn.
    Mér fannst athyglisvert að heyra hjá hv. þm. Árna Mathiesen áðan þegar hann var að greina frá því hvað útvarpshlustandi hélt að karlfugl rjúpunnar héti. Hlustandinn hafði víst álitið að hann héti össur og fannst mér þá komin skýringin á því hvers vegna hæstv. umhvrh. kaus að stytta veiðitíma rjúpunnar um heilan mánuð. Það hafi verið gert af eigin umhyggju og hræðist ég nú að á næsta ári verði rjúpan alfriðuð af þessum sökum. (Gripið fram í.) Hann hefur sloppið núna, en það er ennþá opið veiðitímabil á karlrjúpuna össur í nokkra daga í viðbót. En ég mun nú fjalla nánar um þá reglugerð sem hæstv. ráðherra setti síðar.
    Þetta mál er sem sagt endurflutt. Við 1. umr. þess máls, þegar hv. þm. Eiður Guðnason mælti fyrir því, var mikið fjör og gaman í þinginu og gert mikið grín að því frv. sem þá var lagt fram. En frv. hefur tekið töluverðum breytingum síðan og er alger óþarfi að láta umræðuna taka þá stefnu sem hún tók þá. Ég tel að í megindráttum sé hér um gott mál að ræða, en þó eru ákveðnir þættir í því sem erfitt er að sætta sig við og hlýtur það að kalla á frekari umfjöllun og skoðun í nefnd og vonandi einhverjar breytingar.
    Ég vil benda á og ég hef reyndar margoft gert það og mundi ég nú, hæstv. forseti, óska þess að minn kæri vinur, hæstv. umhvrh., heiðraði okkur hér með nærveru sinni. Það er mikill heiður að fá að hafa hann hér nærstaddan. En ég hef margoft gagnrýnt það og ætla að gera það enn einu sinni að við erum nánast hætt að setja heildstæðar löggjafir. Við erum að setja hér heimildir til reglugerðarsetninga. Það er sú stefna sem er því miður afar ríkjandi í íslenskri löggjöf í dag og löggjafarsetningu, það eru þessar eilífu reglugerðarheimildir til ráðherra. Það eru ófullkomin lög, óútfylltar ávísanir eins og einhver orðaði það hér fyrr í dag, sem ráðherra er afhent og framkvæmdarvaldið fær til að valsa um og leika sér að. Ég hef ekki talið það nákvæmlega en við snögga yfirferð sá ég a.m.k. 9 reglugerðarheimildir til handa ráðherra í þessu litla frv., sem þó er aðeins upp á um það bil 20 greinar og síðan hefur ráðherra öll tök á hinum og þessum málum. Hann getur þetta og hitt og hann ákvarðar þetta og hitt. Slík lagasetning er náttúrlega fyrir neðan allar hellur og Alþingi verður að taka á því. Hvort sem það er þetta mál eða eitthvað annað, þá verður Alþingi að uppfylla skyldu sína og það er að setja lög. Það er ekki að veita opnar heimildir til reglugerðarsetninga fyrir ráðherra og framkvæmdarvaldið. Þetta er auðvitað frumatriði, þetta er frumskilyrði í allri lagasetningu og menn verða að fara að átta sig á því að þetta getur ekki gengið lengur. Alþingi er að afhenda framkvæmdarvaldinu allt of mikil völd og því verður að linna. Og því linnir ekki nema nefndir þingsins taki á málinu. Og þá er ég ekkert frekar að tala um þetta mál heldur en önnur. Þetta er bara orðin lenska í íslenskri löggjöf og þar með missir Alþingi öll sín völd og öll sín tök á málunum.
    Ég gagnrýndi þetta mikið á sínum tíma, en það gerðu fleiri. Það gerði fyrrv. formaður umhvn., hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, á sínum tíma og hafði uppi stór orð. Hann talaði um, og ég er reyndar með umræðurnar hérna, ég hugsa að ég lengi ekki umræðuna með því að lesa upp kafla úr hans ræðu, en hann talaði mikið um miðstýringaráráttu í þessu frv. og hann væri mótfallinn henni. Hann talaði mjög stíft gegn veiðikortinu og taldi þá stefnu óframkvæmanlega og ég get lesið þessa kafla úr ræðu hans seinna ef menn óska þess. Þáv. hæstv. umhvrh. gagnrýndi flokksbróður sinn fyrir þessi ummæli og taldi að hann hefði mælt þau af miklu fljótræði. Hv. fyrrv. formaður umhvn. sagði þá sem svar við þeim ásökunum, með leyfi forseta:
    ,,Ég ítreka að ég sagði ekkert í umræðunum á mánudag í síðustu viku í fljótræði eins og hæstv. umhvrh. taldi að ég hefði gert. Hvert orð sem ég sagði var undirbúið af minni hálfu og við þau stend ég.``

    Nú hlýtur að vera eðlilegt að spyrja: Er þá samkomulag og eining í þingflokki Alþfl. um þetta mál? Ég þekki ekki klerkastéttina að öðru en því að standa við þau orð sem hún gefur og ætla menn að segja mér það að hv. þm. og klerkur, Gunnlaugur Stefánsson, standi ekki við þau orð sem hann ítrekað lýsir yfir að hann standi við? Þess vegna leyfi ég mér að efast um að það sé eining í þingflokki Alþfl. um þetta mál, ég efast stórlega um það. Og ég get alveg sagt að það er ekki slík eining innan raða sjálfstæðismanna. Það eru miklar efasemdir og miklir fyrirvarar við þetta mál eins og áður hafa komið fram og menn hirða kannski ekki um að endurtaka hér strax en munu vafalaust gera það ef málið kemur til 2. umr. óbreytt.
    En ég gagnrýni sem sagt allar þessar reglugerðarveitingar. Síðan eru ýmsar spurningar sem auðvitað vakna. Í 8. gr. t.d., hvað veldur því að menn taka mörkin þar við 230 metra þegar talað er um veiðar í stöðuvötnum? Ég held að ég þurfi ekki að lesa greinina fyrir ráðherra. Hann veit hvað ég er að tala um. Hvaða mælistika er þarna notuð? Það kemur ekki fram í greinargerð eða umsögn um greinina.
    Í 9. gr., af hverju í ósköpunum má ekki á nokkurn hátt nýta fugl sem þvælist í net? Hvaða rök eru fyrir því að ef lundi eða svartfugl eða eitthvað þvælist í net, af hverju má ekki taka þennan fugl og éta hann?
    Ég gagnrýni líka að það megi ekki nota pumpur og reyndar fjölskotabyssur að ákveðnu marki. Það er mikið af þessum byssum í landinu og það er búið að veita heimildir fyrir þeim byssum allt upp í, að ég hygg, 5 skota byssur. En ég gæti hins vegar svo sem sætt mig við að menn reyndu að takmarka það eitthvað, eins og ráðherra kom inn á, en hvernig á þá að framfylgja því? Og auðvitað er það eignaupptaka ef mönnum á alfarið að vera meinað að gera þetta. Ef menn ætla sem sagt að fara í það að setja þetta plasthylki í byssurnar, hvernig á að standa að því? Á að kalla inn allar þessar byssur eða hvernig á að fylgjast með því að þessu sé framfylgt yfir höfuð?
    16. liður 9. gr. hljóðar svo: ,,Hunda til þess að hlaupa uppi bráð, nema við minkaveiðar.`` Það er sem sagt bannað að nota þá við veiðar. þetta finnst mér bara rangt vegna þess að hundar eru líka notaðir til þess að þefa uppi særða bráð og það er mikilvægt tel ég, sérstaklega í rjúpunni, sem er ansi nösk á að fela sig í snjónum og í umhverfinu. Þá er nú skömminni skárra að hundurinn þefi hana uppi heldur en láta hana þjást og deyja þar drottni sínum. Ég held því að þessari grein mætti veita töluverða athygli.
    Í 10. gr. er talað um það að ef veiðimaður særir bráð, rjúpu, gæs eða eitthvað annað, og hún álpast inn á landareign bónda, þá beri veiðimönnum að elta hana og aflífa, sem er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt. En við það að fara yfir eina girðingu, þó að það sé ekki nema hálfan metra, þá ber veiðimanninum þar með að labba með bráðina heim til bóndans og afhenda hana, því hún er orðin eign bóndans. Þetta er auðvitað fáránleg lagasetning, gersamlega fáránleg.
    11. gr. um veiðikort, þar er enn ein heimildin til ráðherra, gersamlega opin heimild um hvað gjaldið á að vera og það er ekkert um það rætt, það eru engar hugmyndir af hálfu ráðherra. Ég óska þess að ráðherra hlusti og svari því hvaða hugmyndir hann hefur um þetta gjald nú í dag. Hvað á það að vera hátt að hans mati miðað við stöðuna í dag? Ég sé í greinargerðum með frv. að fjmrn. gefur sér það að hugsanlega verði 15 þúsund manns sem kaupi þetta kort, 15 þúsund manns. Mennirnir eru ekki jarðbundnir. Þeir fara hærra en skotin úr haglabyssunum. 15 þús. manns, það er gersamlega út úr korti.
    Ég er alfarið á móti veiðikortinu. Af hverju mega menn á Íslandi ekki labba lengur hér upp um fjöll og firnindi og ná sér í rjúpu eða hvaða annan fugl sem þeir vilja? Það á orðið að skattleggja gersamlega allt hér á landi, allt saman. Þetta er auðvitað bara skattur á veiðimenn. Hins vegar er ég sammála því að það á að hvetja til þess að menn haldi skýrslur um sína veiði og skili því þannig að hægt sé að fylgjast með. En skattlagning á veiðimenn er sem sagt gersamlega út í hött.
    Menn eiga að geta fengið úthlutað á tiltekin svæði. Svo kemur í framhaldi af þessu, með öllum þeim heimildum sem ráðherra hefur, auðvitað kvótinn. Það er alveg ljóst að hann kemur. Hann var inni í fyrsta frv. og hann kemur aftur. Það kemur kvóti á þetta alveg eins og allt annað. Það kemur nýtt kvótakerfi og þá kemur auðvitað spurningin: Hafa menn framsalsrétt? Hvað segir ráðherrann? Korthafi skal bera kortið á sér alla tíð og hann skal framvísa því ef þess er óskað. Það er ekki talað um að það eigi að vera einhver sérstakur eftirlitsmaður eða annað slíkt. Það getur Pétur eða Páll vaðið á veiðimanninn og krafist þess að hann framvísi þessu veiðikorti. Þannig er margt mjög skrítið í þessu frv.
    Þá er talað um að menn skuli hafa lokið sérstöku prófi um villt dýr og umhverfi þeirra og í hæfni til að veiða. Ætlar þá hæstv. umhvrh. að kalla inn alla þessa 15.000 aðila, sem fjmrn. telur að muni kaupa sér veiðikort, og setja þá á námskeið? Margir þaulvanir veiðimenn um áratuga skeið. Á að kalla alla þessa menn inn og setja þá á námskeið og kenna þeim um villt dýr og umhverfi þeirra? Hvernig ætla menn að gera það og hvernig ætla menn að gera það fyrir þann pening sem verið er að tala um hér? Það verður þá að ná í aukafjárveitingu eða þá nýtt gjald á þá, námskeiðagjald. ( Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Já, að sjálfsögðu. Það er auðvitað það sem þetta tikkar allt í kringum, það er gjaldtaka hér og gjaldtaka þar. (Gripið fram í.) Hvernig ætla menn svo að meta hæfnina til veiða? Eftir því hvort menn skjóta karlrjúpufuglinn össur eða ekki? Ætla þeir að fara upp í veiðilendur eða á þetta bara að gerast við skrifborðið niður á lögreglustöð? ( Gripið fram í: Það þarf svo litla hæfni til að hitta hann.) Þetta er auðvitað alveg eins og hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði: Þetta er óframkvæmanlegt. Þetta er óframkvæmanlegt og það á að hverfa frá þessu veiðikorti. Það á að hverfa frá skattlagningu jólasteikarinnar.
    Hæstv. umhvrh. setti reglugerð núna í haust um veiðar á rjúpu og stytti þar með veiðitímabilið um

mánuð. Ég hef þá trú og tilfinningu að hæstv. ráðherra hafi ekki gert það með góðri sannfæringu. Hann hafi ekki verið fullviss um að hann væri að gera rétt. Hver var afleiðingin? Afleiðingin birtist m.a. á forsíðu Dagblaðsins fyrir tveim eða þrem dögum þar sem einn veiðimaður var með 800 rjúpur, bara einn veiðimaður. Það hafa borist fregnir af því að menn hafa farið í skipulagðar veiðiferðir, miklu skipulagðari en nokkurn tímann áður, í hópum, og menn hafi jafnvel hreinsað upp heilu svæðin. Það var viðtal við m.a. eina ágæta konu af Austurlandi sem lýsti þessu mjög gjörla fyrir hlustendum. Afleiðingin af þessu skerta veiðitímabili varð ofveiði. Hið rétta í málinu, ef ráðherra vildi vernda rjúpuna, var auðvitað það sem hann sagði reyndar sjálfur, að hann átti að heimila innflutning á henni. Þá hefði þessi sportveiði fallið niður og menn hefðu fyrst og fremst verið að veiða sér til matar, fyrst og fremst.
    Hæstv. forseti. Ég vona innilega að menn taki á þessu í hæstv. umhvn. og falli frá hugmyndinni um veiðikort. Það er hægt að segja fjölmargt meira um veiðikortin en ég tel að það megi geyma til hugsanlegrar 2. umr., en þá verður veiðikortið vonandi ekkert inni í frv., þannig að óþarfi er að vera að orðlengja um það.
    Það má líka spyrja um kostnaðarþáttinn í þessu öllu, eftirlitsþættinum til að mynda. Hvernig á að haga honum? Það kemur ekkert fram um það. Þetta er ,,blankó``-ávísun eins og hér var sagt fyrr í dag.
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að mér finnst einkennilegt þegar svona frv. er samið að þá skuli hagsmunaaðilar ekki fá að koma að því. Mér finnst einkennilegt að fulltrúar veiðimanna eða veiðifélaga skyldu ekki hafa fengið að tjá sig um málið á þann hátt að taka þátt í starfinu frá upphafi. Það getur vel verið að það hafi verið hringt í einhvern í fljótræði bara til þess að segja að það hafi verið haft samráð við þá, en það var ekki haft við smíði þessa frv. og það harma ég.
    Varðandi það að fylgjast með veiði, vegna þess að ráðherrann kom inn á það hér áðan að slíkt væri gert með lax og silunga, þá er auðvitað mjög mikil brögð að því og í silungaveiði eru engar skýrslur. Það er í miklum mæli með laxveiðinni en alls ekki fullkomið og langt frá því. En það er alveg sama þar og sama mundi gerast í skotveiðinni, að heiðarlegir skotveiðimenn væru vissulega tilbúnir til að skila inn skýrslum um allan sinn afla alveg eins og heiðarlegir laxveiðimenn eru tilbúnir að gera.