Eftirlit með innfluttu fóðri

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 13:47:27 (1473)

[13:47]
     Gísli S. Einarsson :
    Virðulegur forseti. Ég er með spurningu til landbrh. og hún kemur til af því að ég á sæti í landbn. fyrir hönd Alþfl. og mér er mjög umhugað um þann málaflokk sem ég er að vinna að. Í mín eyru hefur verið fullyrt að í fæðu dýra sem síðan er slátrað til manneldis á Íslandi sé notað hormónameðhöndlað fóður. Ég spyr hvort þetta sé rétt. Ég spyr: Hver fylgist með því að fóður sem innflutt er innihaldi ekki hormóna? Og er reglulegt eftirlit með slíkum varningi?
    Við Íslendingar höfum talað --- og ég þar meðtalinn --- digurbarkalega um að við værum með hreinasta og besta kjöt og kjötvöru sem framleidd væri í heiminum og þessu var skellt á mig að við skyldum fara varlega í þær umræður því að í ákveðnum fóðurtegundum væru hormónameðhöndluð efni. Ég spyr þess vegna um það, hæstv. ráðherra, hvernig þessi mál standa.