Kynning á tillögum um sameiningu sveitarfélaga

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 13:54:42 (1479)

[13:54]
     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég tel það nú ekki mikið þó að eytt sé 20 eða 30 millj. kr. í það að kynna þetta stóra mál sem er sameining sveitarfélaga og minni á það að þó að hér sé um 20--30 millj. kr. að ræða, þá er það t.d. ekki nema brot af því sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, á sínum tíma fjmrh., varði til þess að kynna spariskírteini ríkissjóðs. Mig minnir að það hafi verið eitthvað milli 500 og 600 millj. kr. Kynningin er í höndum umdæmanefndar og samráðsnefndar þannig að félmrn. hefur ekki afskipti af því með hvaða hætti þetta mál er hér kynnt.
    Varðandi ummæli mín á fundi í gærkvöldi sem hv. þm. vitnaði í, þá hef ég sagt og sagði á fjármálaráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga að ég mundi ekki hafa frumkvæði að því að leggja til lögþvingun varðandi sameiningu sveitarfélaga. Hitt er annað mál sem ég vakti athygli á í gær að sameining hefur ekki gengið eftir á hinum Norðurlöndunum nema með lögþvingun. Ég taldi því ástæðu til þess að vekja athygli á því að það væri sérstakt ánægjuefni ef við mundum ná fram verulegum áfanga í sameiningu sveitarfélaga í lýðræðislegum kosningum sem fram eiga að fara á laugardaginn kemur.
    Hitt nefndi ég einnig, og það er ekki hótun af minni hálfu, að ég held að allir sjái að það verður ekki mikið lengur staðið gegn sameiningu sveitarfélaga hvort sem við náum árangri á laugardaginn kemur eða ekki. Spurningin væri einungis um það hvernig það yrði gert og hve hratt það gengi fyrir sig.