Kynning á tillögum um sameiningu sveitarfélaga

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 13:56:27 (1480)

[13:56]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað í fyrsta lagi röng sú samlíking sem hæstv. ráðherra hefur hér gagnvart Norðurlöndunum vegna þess að þar var ekki aðeins um lögþvingun að ræða gagnvart sveitarfélögunum heldur var um það að ræða að menn tóku þar upp þriðja stjórnsýslustigið. Þetta er auðvitað dæmi um þann hálfsannleika sem hefur verið notaður til þess að reka þetta mál á af hálfu stjórnvalda að undanförnu.
    Hitt er þó miklu alvarlegra að hæstv. ráðherra gerir sér ekki grein fyrir að á því er grundvallarmunur að auglýsa til sölu spariskírteini ríkissjóðs og nota peninga úr ríkissjóði til þess að knýja fram tilteknar skoðanir eins og gerist hér í þessu skjali sem dreift er um þessar mundir þar sem stendur t.d., með leyfi forseta:
    ,,Verði ekki af þessari eflingu sveitarfélaganna er ljóst að ekki verður af því í bráð að verkefni flytjist frá ríki til sveitarfélaga.``
    Með öðrum orðum, hér er verið að nota peninga úr ríkissjóði til þess að hóta fólki. Kjósið með mér, annars fáið þið ekki neitt. Þetta er misnotkun á almannafé.