Verkefnaflutningur til sveitarfélaga

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 14:02:38 (1488)

[14:02]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég hef nú fallist á að nýta þennan ræðurétt minn til að bera af mér sakir, en eðlilegt hefði verið að ég hefði fengið að bera af mér sakir þegar ráðherra kom fram með þær á sínum tíma í svari við annarri fsp. hér áðan.
    Það er rétt að leiðrétta það sem kom fram hjá ráðherra að svonefnd sveitarfélaganefnd hefur ekki gert neina tillögu um verkefnaflutning, engar. Það sem nefndin lagði til var að málinu yrði vísað heim í hérað og þar yrðu heimamenn látnir kjósa um það hvort ætti að sameina sveitarfélög eða ekki. Og þess vegna var það lagt til að skipaðar yrðu umdæmanefndir og heimamenn kysu þær og ríkisvaldið drægi sig út úr málinu. Það er nákvæmlega það sem ríkisvaldið hefur ekki gert. Það hefur ekki staðið við það samkomulag sem gert var m.a. við Samband ísl. sveitarfélaga því að það hefur notað svonefnda samráðsnefnd til þess að auglýsa fyrir hönd ríkissjóðs, með peningum ríkissjóðs, tillögur umdæmanefndar. En ríkið átti ekki að koma nálægt þessu máli og um það var samið. Það er sannleikurinn í málinu.
    En ég vildi spyrja hæstv. ráðherra úr því að færi á því gefst. Í ljósi þess sem kom fram hjá hv. 9. þm. Reykv. að ef ekki verður af þessari eflingu er ljóst að ekki verður af því í bráð að verkefni flytjist frá ríki til sveitarfélaga eins og stendur hér í bæklingi frá umdæmanefnd höfuðborgarsvæðisins. Er það skoðun ráðuneytisins að verkefni verði ekki flutt nema menn samþykki þessa tillögu? Er það það sem verið er að kjósa um? Ég vek athygli á því að Samband ísl. sveitarfélaga hefur gagnstæða skoðun. Það hefur sagt: Það á að flytja verkefni burt séð frá því hvort það verður sameinað eða ekki og með þeim rökum að sveitarfélög leysi úr sínum verkefnum þegar að því kemur, annaðhvort með því að gera það sjálf, í samstarfi við önnur sveitarfélög eða með því að sameinast.