Verkefnaflutningur til sveitarfélaga

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 14:06:37 (1490)

[14:06]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé óþarfi að þræta um það hvað stendur í lokaskýrslu sveitarfélaganefndar. Það liggur ljóst fyrir að þar er spurningin um verkefnaflutning lögð til hliðar.
    En ég vil ítreka spurningu mína af því að ráðherra svaraði henni ekki: Er það rétt að verkefnaflutningur sé tengdur úrslitum í þessum kosningum? Er það rétt? Ráðherra svaraði því ekki. Því að það er nýmæli ef svo er. Ég bendi á það að ríkisstjórnin hefur tekið ákvörðun um að taka langstærsta verkefnið af þessum fjórum, grunnskólann, og segir: Við flytjum þetta verkefni óháð því hvort það verði sameinað eða ekki. Ég bendi á að verkefni númer tvö, heilsugæslustöðvarnar, voru sveitarfélögin með til 1990 og geta auðveldlega tekið við aftur án sameiningar. Og öldrunarþjónustan fylgir þar með þannig að það er ekkert nema málefni fatlaðra sem spurning er um og það er alveg nýtt í þessu máli ef ráðherra stillir því þannig upp að verkefnaflutningur verði ekki nema um sameiningu verði að ræða. Og ég fer fram á það að hæstv. ráðherra svari því skýrt og skorinort hvort svo er, að hér sé um rétta fullyrðingu að ræða hjá umdæmanefnd Reykjavíkur.