Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:10:07 (1502)

[15:10]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það lágu allar upplýsingar fyrir um það með hvaða hætti ætti að standa að þessum sparnaði og í þeirri skýrslu sem unnin hefur verið og vitnað er til er nánar gerð grein fyrir því hvað þarna

liggur að baki. Það þarf auðvitað engum að koma á óvart þegar verið er að taka á flóknu máli eins og þessu að tölur geta skolast til í slíkri vinnu. En í engum atriðum hefur hv. þm. getað bent á að þær tillögur sem í upphafi voru settar fram hafi í einhverjum verulegum atriðum raskast. Þær standast í öllum meginatriðum eins og fram kemur í þessari skýrslu. En eins og gengur og gerist koma fram ákveðnar leiðréttingar við nánari skoðun. Kjarni málsins er auðvitað þessi: Vilja menn takast á við þetta verkefni eða vilja menn það ekki? Ég skil alveg hvað hv. þm. er að fara í því efni, en bendi honum á að ræða einmitt þann þátt málsins frekar á heimavígstöðvum.