Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:11:24 (1503)

[15:11]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hvassyrtar athugasemdir hæstv. dómsmrh. vekja upp þær spurningar hvort gert hafi verið samkomulag við Alþfl. um það að þar verði allir að tala í takt við Jón Baldvin og ef svo er, hvort hæstv. dómsmrh. hefur skrifað undir það að innan Sjálfstfl. skuli allir tala í takt við hæstv. forsrh. Það vekur nefnilega verulega athygli að ekki sé meira sagt þegar menn fara í þær rökfræðilegu hringavitleysur hér úr ráðherrastól að halda því að fyrst eigi að flytja embættin burtu af landsbyggðinni og svo eigi að fara að styrkja þau. Það er náttúrlega nokkuð sem ekki gengur upp rökfræðilega. Og hvar er ábyrgð þeirrar nefndar sem hæstv. forsrh. skipaði um flutning á stofnunum út á land ef ekkert má taka til athugunar sem í skýrslu hennar stendur?