Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:14:31 (1507)

[15:14]
     Jón Helgason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmrh. var undrandi að það skyldi koma fram annað sjónarmið frá hv. 5. þm. Austurl. heldur en formanni flokksins, en ég held að við séum frekar undrandi á því ef menn innan ríkisstjórnarinnar eru sammála um einhvern hlut heldur en að það sé ósamkomulag. Best ætti hæstv. dómsmrh. að vita það, svo oft hefur hæstv. forsrh. lýst sig ósammála hans viðhorfum.

    En ég vil aðeins geta þess að allshn. fékk yfirlit yfir innheimtuhlutfall embætta í árslok 1992 og þar kom fram að ef það væri sama innheimtuhlutfall hjá Gjaldheimtunni í Reykjavík eins og sýslumanni í Kópavogi, þá hefði verið um 1.400 millj. kr. meira í ríkissjóði í árslok. Ég held að það hljóti allir að vera sammála um að það væri mikill skaði ef þannig færi, en það er Gjaldheimtan í Reykjavík sem á að taka við innheimtu af sýslumanninum í Kópavogi.