Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:23:10 (1509)

[15:23]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil segja um þessa tillögu að það er góðra gjalda vert þegar menn koma hér með tillöguflutning og málflutning í framhaldi sem að mínu viti hefur réttar áherslur þó að ég sjái nú ekki fram á að fyrir henni sé sá þingmeirihluti sem þarf að vera, m.a. vegna þess að Alþfl. hefur haldið Sjálfstfl. hér við stjórnvölinn undanfarin ár og eftir því sem best er vitað hyggst gera það áfram.
    Það kom fram í máli síðasta ræðumanns eitt atriði sem mig langaði til þess að hnykkja á og það var að það mætti gjarnan stofna húsnæðisskrifstofur úti á landi og færa verkefni Húsnæðisstofnunar ríkisins þannig meira frá Suðurlandsbraut 24. Ég er alveg sammála þessu og hef reyndar haft uppi þennan málflutning innan stofnunarinnar en því miður verið afskaplega einmana með þau sjónarmið og sakna þess að fá ekki skarpar undirtektir hjá tveimur fulltrúum Alþfl. í þeirri stjórn. Ég vænti þess að tillögumenn muni nú tala fyrir þessu máli við fulltrúa Alþfl. í Húsnæðisstofnun ríkisins þannig að þeir fulltrúar tali sömu tungum og fulltrúar Alþfl. hér á þingi í þessu máli. Ég teldi að það væri málinu til framdráttar ef menn væru með samræmdan málflutning hvað þetta varðar.
    Ég nefndi líka þetta sjónarmið hér í þingsölum á sl. vetri við endurskoðun laga um Húsnæðisstofnun ríkisins en því miður var ekki mikill hljómgrunnur við það. En ég fagna því að nú hafi fundist liðsmenn hér við þetta sjónarmið.