Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 15:39:23 (1515)

[15:39]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar, till. til þál. um flutning verkefna frá stjórnsýslustofnunum ríkisins í Reykjavík til sýslumannsembættanna, er efnislega sama efnis og tillaga sem kemur fram í skýrslu sem stjórnskipuð nefnd um flutning ríkisstofnana út á land skilaði sl. sumar. Það sem ég vil gera að umræðuefni er ekki efni þessarar tillögu, ég er að sjálfsögðu sammála því efnisatriði sem í tillögunni er en ég vil gera athugasemd við þá aðferð sem er notuð og þau vinnubrögð sem hafa verið höfð í frammi.
    1. flm. þáltill., hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson, sat í þeirri nefnd sem getið er um í greinargerðinni ásamt nokkrum öðrum þingmönnum og Hrafnkeli A. Jónssyni. Þessi nefnd skilaði eftir mikla vinnu tillögum sem verður að líta svo á að hafi verið settar fram í heild og þar hafi verið leitast við að gæta nokkurs jafnvægis. Þessar tillögur og þessi skýrslugerð fór fram á vegum forsrh. og þegar skýrslunni var skilað í hendur forsrh. þá er málið í höndum hans. Það skýtur því nokkuð skökku við þegar einstakir nefndarmenn taka ákveðin atriði út úr þessari skýrslu og þeim tillögum sem þar er að finna og gera úr því sérstök þingmál. Það kallar á svör við þeim spurningum hvort 1. flm. hafi aflað sér þeirra upplýsinga frá ríkisstjórn og þá frá forsætisráðherra að þetta mál gengi þar ekki eðlilegan gang, ellegar hvort hann hefði yfir höfuð aflað sér upplýsinga um það í hvaða farvegi þetta mál væri á vegum forsrn.
    Það hlýtur að gefa auga leið að það er ekki eðlilegur gangur máls ef ákveðnir nefndarmenn í nefnd eins og þeirri sem hér hefur verið í umræðu taka ákveðnar tillögur innan þeirra tillagna sem þeir hafa unnið að á vegum forsrh. og gera þær að sínum. Þessi vinnubrögð vekja vissulega spurningar um frumkvæði í málinu og hvort það er ekki óeðlilegt að vinna með þessum hætti.