Skýrsla um sjúkrahúsmál

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 10:38:40 (1534)

[10:38]
     Jónas Hallgrímsson :
    Virðulegur forseti. Ég kem hér upp til að lýsa fyllsta stuðningi við málflutning hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og vil árétta að slík vinnubrögð sem hér eru á ferðinni ná ekki nokkurri átt. Ég heyrði að vísu ekki og sá ekki þessa frétt í ríkisfjölmiðlum í gærkvöldi en hlustaði hins vegar í morgun af tilviljun einni á stóryrtar yfirlýsingar hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar og vonandi ganga þær heitingar eftir sem þar voru um munn hafðar.
    Ég vil lýsa því jafnframt yfir að það er mjög undarleg málsmeðferð að heimamönnum skuli ekki vera kynnt þessi embættisskýrsla eins og hæstv. utanrrh. nefndi hana hér áðan og stjórnum þeirra sjúkrahúsa sem hlut eiga að máli. Mér finnst þetta óvirðing og dónaskapur ef svo má að orði komast.