Skýrsla um sjúkrahúsmál

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 10:43:01 (1537)

[10:43]
     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Mér skilst að þessi embættisnefnd hafi verið skipuð í tíð fyrrv. heilbrrh. En þrátt fyrir það þá hefði ég talið að Alþingi hefði átt að fá þessa skýrslu fyrst til umræðu og umfjöllunar þó ég geri alvarlega athugasemd við það að þegar mál sem varðar jafnmikið landsbyggðina og þetta er tekið til athugunar að það skuli enginn fulltrúi vera utan af landi hvorki fulltrúi sem þetta fólk hefur kjörið til setu á Alþingi eða frammámenn sveitarfélaga eða frammámenn í heilbrigðisþjónustunni út á landi. Það vekur furðu mína. Hitt er svo annað mál að ég heyrði yfirlýsingu fyrir allmörgum árum frá fyrrv. heilbrrh. þar sem hann taldi að það þyrfti að færa starfsemi fjölmargra greina heilbrigðisþjónustunnar eingöngu til Reykjavíkur og að sumu leyti til Akureyrar. Hvers vegna höfum við verið að byggja upp sjúkrahús víðs vegar um landið með ærnum kostnaði, ráða starfslið, kaupa dýr tæki, ef svo allt í einu er orðin mestur sparnaður í því að leggja það allt niður? Þetta er hlutur sem ég vil fá tækifæri til að ræða nánar. Ég þekki flest fólk sem hefur verið í þessari nefnd persónulega og þekki það af öllu góðu í þeim störfum sem það er að vinna en það er ekki að sama skapi að ég treysti því til þess að ráða fram úr vandamálum landsbyggðarinnar í þessum efnum. Þess vegna tek ég undir þá athugasemd sem hér hefur komið fram og furða mig á því að þetta mál skuli ekki fyrst og fremst vera rætt á Alþingi frekar við fjölmiðla. Það er að verða tíska ef fjölmiðlar vita um að mál sé sent jafnvel ákveðnum ráðherra þá vilja þeir fá að vita efni þess áður en viðkomandi ráðherra fær bréfið í hendur.