Skýrsla um sjúkrahúsmál

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 10:50:12 (1540)

[10:50]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni árétta það að hér er um að ræða nefndarálit sérfræðinga sem skipaðir voru til starfa af fyrrv. heilbrrh. Það er að mínu mati óheppilegt ef menn efna hér til efnisumræðu um skýrsluna að hæstv. heilbrrh. fjarverandi. Það er beinlínis rangt að þetta álit endurspegli einhvern hug stjórnvalda vegna þess að pólitísk umfjöllun um það hefur engin farið fram. Og að því er varðar gagnrýni á málsmeðferðina, þá hafa menn fundið að því að skýrslan hafi ekki fyrst verið send hv. alþm. Það má vel vera að sú gagnrýni eigi rétt á sér, en ég vil leyfa mér að ætla að ef hæstv. heilbrrh. hefði stungið þessu sérfræðinganefndaráliti undir stól hefði það ekki síður þótt gagnrýnivert. Og með hliðsjón af nýjum lögum og nýjum viðhorfum um opna stjórnsýslu, þá er ég ekki viss um að þetta sé svo mjög gagnrýnivert vegna þess að réttur Alþingis til þess að fjalla um þessa skýrslu hefur að sjálfsögðu ekki verið af því tekinn. Að sjálfsögðu verður þetta mál rætt fyrst í ríkisstjórn og væntanlega á Alþingi og er þingmönnum í lófa lagið að tryggja það. Ég hygg að það séu mörg fordæmi fyrir því að sérfræðinganefndarálit af þessu tagi hafi verið birt með þessum hætti, jafnvel áður en pólitísk afstaða hefur verið tekin til þeirra þannig að ég tel þessa umræðu um efni málsins ótímabæra, virðulegi forseti.