Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 10:58:59 (1546)

[10:59]
     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Áður en frsm. hv. allshn., sem haft hefur skýrslu umboðsmanns fyrir árið 1992 til athugunar, gerir grein fyrir umfjöllun nefndarinnar vil ég fyrir hönd forsætisnefndar segja nokkur orð.
    Samkvæmt 12. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, ber umboðsmanni að gefa Alþingi árlega skýrslu um starfsemi sína á liðnu almanaksári.
    Sú skýrsla sem hér liggur fyrir er hin fimmta sem umboðsmaður sendi frá sér. Hún er jafnframt sú viðamesta, um 360 blaðsíður, en fyrsta skýrsla umboðsmanns fyrir árið 1988 var 50 blaðsíður. Er það táknrænt fyrir þá aukningu sem orðið hefur í starfi umboðsmannsins síðan hann hóf störf.
    Sá háttur var tekinn upp í fyrra, að nokkru samkvæmt fyrirmynd frá öðrum norrænum þjóðþingum en embætti umboðsmanns er einmitt norrænt að uppruna, að forsætisnefnd vísaði skýrslu umboðsmannsins til allshn. Var það gert í því skyni að auka umræðu um skýrsluna á hv. Alþingi þannig að hún einskorðaðist ekki við þingsalinn og þá umræðu sem hér fer fram heldur ættu alþingismenn kost á því að fara vandlega yfir skýrsluna og ef svo ber undir að ræða við umboðsmann um efni hennar á nefndarfundi. Ég hygg að þetta fyrirkomulag hafi gefist vel og muni verða áfram við lýði nema Alþingi setji síðar á fót einhvers konar eftirlitsnefnd þingsins með framkvæmdarvaldinu svo sem tíðkast í sumum löndum hér í kringum okkur en þá mundi skýrsla um störf umboðsmanns einmitt falla undir slíka nefnd.
    Forsætisnefnd sá ástæðu til þess í bréfi til allshn. vorið 1992 að taka það sérstaklega fram við nefndina að óska eftir því að hún fjallaði almennt um skýrsluna og störf umboðsmanns, en ekki um einstök mál nema þau gefi tilefni til almennra hugleiðinga um störf umboðsmannsins og stjórnsýsluna. Þessi ósk á ekki síður við um þessa umræðu sem hér fer af stað og eftir athugun nefndarinnar í fyrra og umræðurnar hér í þingsalnum er fyllsta ástæða til að ætla að þingmenn fjalli um skýrsluna á þennan hátt.
    Embætti umboðsmanns Alþingis er önnur tveggja eftirlitsstofnana Alþingis með framkvæmdarvaldinu og gegnir sem slík veigamiklu hlutverki. Ég vil við þetta tækifæri láta í ljós ánægju með störf umboðsmanns og þakklæti til dr. Gauks Jörundssonar. Starf hans hefur verið farsælt og mikil fengur fyrir Alþingi og reyndar stjórnsýsluna líka að hann fékkst til þess að taka þetta starf að sér og móta það. Á Alþingi hvílir þar á móti sú skylda að standa við bakið á umboðsmanni í þeim málum sem hann leggur áherslu á að fá úrbætur í og hefur forsætisnefnd nýlega rætt um það á fundum sínum með hvaða hætti það mætti betur gera en verið hefur.
    Þá tel ég líka miklu skipta að umboðsmaður fái þær fjárveitingar til reksturs embættis síns sem hann telur nauðsynlegar. Ef þær eru ekki nægar samkvæmt fjárlaga- og fjáraukalagafrv. verður Alþingi að taka myndarlega á því máli.
    Þessi orð, hæstv. forseti, vildi ég mæla fyrir hönd forsætisnefndar áður en umræðan um skýrslu umboðsmannsins hefst.