Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 11:30:41 (1550)

[11:30]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Reykv. fyrir greinargóða kynningu á skýrslu umboðsmanns Alþingis. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort það væri ástæða til þess að taka upp þá spurningu hvort Alþingi ætti að gefa umboðsmanni sjálfum tækifæri til að gera alþingismönnum öllum, ekki einungis allshn., grein fyrir störfum sínum með formlegum hætti, ekki einungis í skýrsluformi, heldur á ég þá

við að um einhver skoðanaskipti gæti orðið að ræða.
    Ég tek það fram að umræðan innan allshn. er góðra gjalda verð og mjög fróðleg að mínu mati. Ég er svo heppin að koma að þeirri umræðu en þar sem athyglisverðar upplýsingar komu fram bæði í skýrslu umboðsmanns og einkum í þessari umræðu um störf Alþingis í heild og ýmissa nefnda annarra en allshn. þá velti ég þessu fyrir mér í fullri alvöru. Ég bendi á að það er til margs konar útfærsla á þessu atriði í öðrum þjóðþingum.
    Ég held að það hafi komið fram nú þegar í þessari umræðu að þau mál er umboðsmaður hefur til umfjöllunar varða störf okkar alþingismanna ekki síður en ýmissa ráðuneyta og þá einkum lagasetningu sem átt hefur sér stað, þar með talið á hvern hátt best megi haga umfjöllun ýmissa þingnefnda. Þessar ábendingar eru þarflegar til skoðunar. Það gæti jafnvel komið til í einhverjum tilvikum að ástæða væri til frumkvæðis þingnefnda að taka upp einstök mál í framhaldi af ábendingum umboðsmanns ef frumkvæði kemur ekki frá framkvæmdarvaldi. Í umræðu allshn. með umboðsmanni og starfsfólki hans kom m.a. fram að í a.m.k. fimm tilvikum hafa úrskurðir umboðsmanns nú að undanförnu leitt til þess að mál hafa gengið áfram til dómstóla og þetta finnst mér út af fyrir sig líka mjög íhugunarvert. Ég vil vegna forms umræðunnar taka það fram að það á ekki heima að rekja það neitt ítarlega hér hver slík mál eru. Í einhverjum tilvikum væri það þarflegt undir einhverjum formerkjum að hafa tækifæri fyrir fleiri alþingismenn heldur en fulltrúa í allshn. að ræða hver slík mál eru og hvað það er sem sérstaklega er um að ræða.
    Annað atriði ekki síður umhugsunarvert finnst mér vera að það er staðreynd að í a.m.k. einu tilviki eftir því sem umræða var í allshn. hefur opinber aðili hunsað álit umboðsmanns. Þetta er auðvitað alvarlegt og okkur vantar e.t.v. möguleika á því að fylgja eftir með einhverjum hætti málum þegar slíkt gerist. Það fylgdi raunar sögunni að vonandi væri þetta allt á misskilningi byggt en engu að síður finnst mér þetta vera alvarlegt mál. Þetta eru þau fyrstu atriði sem mér finnst ástæða til að drepa hér á.
    Það sem kannski er ástæða til að gera að meginatriði í þessari umræðu eru þau atriði sem hv. 3. þm. Reykv. benti á og varða þjónustugjöld og skatta. Ég tel að það komi mjög glöggt fram í skýrslu umboðsmanns að þetta er vaxandi umkvörtunarefni og þessum orðum er ekki síst beint til alþingismanna og ég hvet hv. þingmenn til þess að taka tillit til þessara ábendinga. Ég hlýt þó að benda á að sökin liggur ekki síst hjá framkvæmdarvaldinu og vil taka undir þá tilvitnun í skýrslu löggiltra endurskoðenda sem hv. 3. þm. Reykv. gerði að umtalsefni með mjög skemmtilegum hætti og þá ekki síst þar sem hann vék að tímaritsgrein Indriða H. Þorlákssonar í Áliti --- tímariti löggiltra endurskoðenda.
    Við þekkjum líklega flest lýsingu hliðstæða þeirri sem Indriði H. Þorláksson rekur í grein sinni þegar skattlagningarfrumvörp og önnur tekjuöflunarfrumvörp eru að birtast fram undir jól og ætlast til þess að þau séu afgeidd undir tímapressu. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt að mikilvæg mál séu afgreidd af vansvefta fólki sem hittir annað vansvefta fólk sem hefur verið að vasast í sömu málum. Slíkt á auðvitað ekki að líðast. En engu að síður hefur þetta verklag verið allt of lengi. Flestir virðast reka augun í þetta en enginn virðist hafa burði til þess að takast á við þetta af nokkurri alvöru og undir slíkum kringumstæðum er þingnefndum hreinlega gert ókleift að vinna sína vinnu sómasamlega.
    Það er eitt annað efnisatriði sem mig langar að minnast á að lokum en það eru sérstaklega þau tilvik þar sem stofnanir eða ráðuneyti vísa erindum á milli sín og í raun er ekki glöggt á sviði hvers einstök erindi eru. Það er nauðsynlegt að mínu mati að kveða skýrar á um stöðu og verksvið stofnana og ráðuneyta. Ég held að það komi til kasta Alþingis í einhverjum þessum málum að sjá svo um að réttarstaða almennra borgara sé slík að borgarinn geti leitað til ákveðins aðila og þurfi ekki að eyða löngum tíma og kannski dýrmætum tíma í það að komast að því við hvern á að tala. Ég held að þetta sé sérstaklega mikilvægt samhliða því að hin nýju og gagnmerku stjórnsýslulög ganga í gildi til þess að þau nái fullkomlega tilgangi sínum. Það kom fram í umræðu í allshn. að þessi mál eru ekki fullkomlega í lagi og því hlýtur það að vera umhugsunarefni með hvaða hætti þarna er hægt að taka sérstaklega á.
    Þessi orð læt ég nú vera þau sem ég sérstaklega vil færa inn í þessa umræðu en eftir því sem umræða þróast hér er mögulegt að ég komi aftur og fjalli um fleiri atriði er varða þessa skýrslu.
    Ég vil að lokum taka undir það sem fram hefur komið hér að ég tel að embætti umboðsmanns Alþingis sé bæði mjög þarft og ég held að starf umboðsmanns hafi verið rækt með sóma. Það er ekki annað að sjá. Ég held að það sé almennt hægt að vera mjög ánægður með að þessi ákvörðun var tekin fyrir þó ekki mörgum árum að stofna þetta embætti og það hefur þegar sannað gildi sitt.